Nýjar leiðbeiningar á íslensku fyrir Skráargatsreglugerðina

Skráargatið er opinbert samnorrænt hollustumerki sem finna má á umbúðum matvara sem uppfylla ákveðin skilyrði varðandi samsetningu næringarefna.
Markmiðið með Skráargatinu er að neytendur geti á einfaldan hátt valið hollari matvöru.
Notkun merkisins er valfrjáls, en vörur sem bera merkið verða að uppfylla ákveðin skilyrði.

Fyrsta íslenska reglugerðin um notkun Skráargatsins við markaðssetningu matvæla tók gildi 12. nóvember 2013 en síðan hefur reglugerðin verið uppfærð tvisvar, síðast 17. apríl 2015.

Skráargatið er sænskt að uppruna en hefur nú verið tekið upp af fleiri þjóðum og byggist á samstarfi milli Íslands, Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar.

Skilyrðin fyrir notkun Skráargatsins byggja á Norrænum næringarráðleggingum en í þeim er lögð áhersla á matvæli sem geta dregið úr líkum á mörgum lífstílssjúkdómum, einkum hjarta- og æðasjúkdómum, ákveðnum tegundum krabbameins, sykursýki tegund 2, beinþynningu og offitu.

Skráargatsmerkingin er í stöðugri endurskoðun og skilyrðin fyrir merkingunni eru endurskoðuð eftir því sem þekking og/eða breytingar á matvælamarkaði gefa tilefni til.

Leiðbeiningar þessar eru ætlaðar sem viðbót við reglugerðina um notkun Skráargatsins, en hafa ekki lagalegt gildi. Ef breytingar verða á túlkun reglugerðarinnar munu leiðbeiningarnar verða uppfærðar eftir þörfum.

DEILA