Landssamband veiðifélaga: laxeldi tilræði við villta laxastofa

Seyðisfjörður á Austurlndi.

Landssamband veiðifélaga hefur sent frá sér ályktun í tilefni af fyrirhuguðu 10.000 tonna laxeldi í Seyðisfirði á Austurlandi.

Í ályktuninni er áformum Fiskeldis Austfjarða hf. um 10.000 tonna framleiðslu á laxi í Seyðisfirði harðlega mótmælt. Landssambandið tekur undir mótmæli veiðifélaga Hofsár og Sunnudalsár, Selár og Vesturdalsár um þetta sama efni. Segir að tugir þúsunda ferðmanna komi til landsins með Norrænu og  þá  „verður fyrsta sýn þessara ferðamanna opnar sjókvíar – verksmiðjur í sjónum. Þessi sýn er í boði íslenskra stjórnvalda sem lagt hafa mikla áherslu á að kynna íslenska náttúru sem hreina og óspillta.“

„Eitt af hinu fyrirhuguðu eldissvæðum er við Háubakka, einungis steinsnar frá ós Fjarðarár í Seyðisfirði, sem er aðallega sjóbleikjuá en auk þess veiðist nokkuð af laxi í henni. Samkvæmt reglugerð nr. 540/2020, um fiskeldi, er er ekki heimilt að ala laxfiska í sjókví sem er styttra en 5 km frá ám með villta stofna laxfiska. Annað fyrirhugað svæði er við friðlandið í Skálanesi þar sem þúsundir fugla af 40 mismunandi tegundum verpa. Sýnir þetta skýrt ósvífni þeirra sem að áætlunum þessum standa.

Nálægð þessara sjókvía við einhverjar nafntoguðustu laxveiðiár á Íslandi er tilræði við villta laxastofna á Austfjörðum.

Sameiginlegar hugmyndir fiskeldisfyrirtækjanna og stjórnvalda um stórtækt eldi á norskum eldislaxi í Seyðisfirði ganga í berhögg við markmiðsákvæði laga um náttúruvernd. Einkum er vísað til þess að markmið laganna er m.a. að vernda líffræðilega fjölbreytni og tryggja þróun íslenskrar náttúru á eigin forsendum. Með því að staðsetja sjókvíaeldi í Seyðisfirði er gengið gegn þessu markmiði enda ljóst að villtir stofnar laxfiska sem eiga heimkynni í firðinum, sem og í öðrum austfirskum ám, munu verða fyrir verulega neikvæðum áhrifum af eldisiðnaðninum.

Ljóst er að með því að staðsetja eldi sem inniheldur 2,3 milljónir frjórra laxa er verið að taka óásættanlega áhættu með ómetanleg náttúruverðmæti. Laxastofnar á Austfjörðum búa við miklar sveiflur í stofnstærð og oft óblíð umhverfisskilyrði. Með eldi í Seyðisfirði er verið að vega að tilvist þeirra og þar með líffræðilegum fjölbreytileika í náttúru Íslands. Landssamband veiðifélaga mótmælir harðlega þessum fyrirætlunum um eldi frjórra laxa í Seyðisfirði.“

 

DEILA