Ungmenni, hreyfing og lýðheilsuhallir

Á Covid tímum er sannarlega ástæða til að beina athyglinni að málefnum barna og ungmenna. Mikilvægt er að gefa því gaum hvernig þessi hópur í samfélaginu tekst á við gjörbreyttar og óvæntar aðstæður og leita leiða til að draga úr áhrifum og afleiðingum af skertu frelsi og jafnvel einangrun.

Andleg velferð

Vanlíðan, kvíði og einmanaleiki þeirra vex, segir fagfólk sem starfar með börnum og unglingum. Mun fleiri börn og ungmenni á aldrinum 12 – 16 ára hafa haft samband við hjálparsíma Rauða krossins í haust en áður, og allt niður í 10 ára aldur. Verkefnastjóri segir að þau greini frá mikilli vanlíðan út af faraldrinum og hertum sóttvörnum.

Umboðsmaður barna tekur undir þetta og segir ástæðu til að fylgjast vel með andlegri líðan barna í því ástandi sem nú ríkir.  Ungt fólk tjáir sig mikið um kvíða á samfélagsmiðlum vegna þriðju bylgjunnar og hafa sum lýst því yfir að þau séu nánast óvinnufær vegna kvíða.

Stjórnendur í heilbrigðisþjónustu eru sama sinnis og árétta að mikilvægt sé að foreldrar séu meðvitaðir um þau áhrif sem umræðan á heimilinu hafi á börn.

Skólarnir vinna gott og vandað starf við þessar erfiðar aðstæður.  Í framhaldsskólum er víða fjarkennsla, hólfaskipting og grímuskylda í grunnskólum. Tómstunda- og íþróttastarf hefur verið í lágmarki og álagið á skólaumhverfið því enn meira.

Líkamlegt heilbrigði

Þegar svona er í pottinn búið finna aðstandendur barna og unglinga vel hvað virk þátttaka í íþróttastarfi skiptir miklu máli fyrir velferð þeirra og líðan, hversu uppbyggjandi íþróttastarf er. Þetta góð forvörn og mikilvæg þjálfun í félagslegri færni. Íþróttastarf og hreyfing hefur mikið að segja fyrir heilsuna og jafnvel enn frekar á tímum sem þessum.

Einn þáttur sem sjaldan er nefndur er aðgangur að íþróttahúsum um landið allt, en þau eru alltaf mjög ásetin. Aðstaða fyrir íþróttastarf innan húss er þó talsvert mismunandi.   Á Suðvesturhorninu hafa sveitarfélög af myndarskap komið upp nokkrum fjölnota húsum og á örfáum stöðum þess utan. Húsin eru oft nefnd knattspyrnuhús, en nýtast auðvitað miklu meira en bara til sparkíþrótta.

 

 

Staðan fyrir vestan

Á Ísafirði er undirbúningur að byggingu fjölnotahúss langt á veg kominn en vitaskuld vex ráðamönnum kostnaður í augum en metnaðurinn er mikill. Ávinningurinn er ótvíræður og aukin tækifæri skapast til að efla og bæta kraftmikið íþróttastarf sem fyrir er.  Fjölnotahús hús nýtist vitaskuld fyrir ólíka hópa, þ.m.t. eldri borgara til heilsubóta eins og reynsla annars staðar hefur sýnt.

Lýðheilsuhallir

Það er mikið hagsmunamál fyrir þéttbýlisstaði og minni sveitarfélög út um landið að hafa aðgang að slíkum húsum. Alhliða íþrótta- og tómstundaiðja fyrir börn og ungmenni er líka oft einn þeirra þátta sem skiptir máli þegar fjölskyldur taka ákvörðun um búsetu.

Að þessu þurfa stjórnvöld að huga þegar rætt er um markmiðin að jafna búsetuskilyrði í landinu. Því skora ég á ríkisstjórnina að sýna vilja sinn í verki, gera sveitarfélögum þetta mögulegt, t.d. með því að falla frá innheimtu virðisaukaskatts af nýbyggingum íþróttamannvirkja.

Guðjón S. Brjánsson

alþingismaður Samfylkingarinnar

NV kjördæmi

 

DEILA