Sjávarútvegsmiðstöð Háskólans á Akureyri hefur skilað atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu skýrslu um álitaefni sem varða útflutning óunnins fisks og áhrifa á íslenskt atvinnulíf og samfélag.
Sjávarútvegsmiðstöðinni var falið að vinna hana eftir fyrirspurn frá atvinnuveganefnd Alþingis.
Skýrslan var unnin af Guðrúnu Arndísi Jónsdóttur, forstöðumanni Sjávarútvegsmiðstöðvar HA með aðkomu Hjalta Jóhannessonar, sérfræðings á Rannsóknamiðstöð HA og Rannveigar Björnsdóttur, sviðsforseta Viðskipta- og raunvísindasviðs HA í mars og apríl 2020.
Í skýrslunni kemur fram að verðmætasköpun og frumkvöðlastarf sé samfélögum mjög mikilvægt og að aukin hagsæld til lengri tíma fáist með því að auka verðmæti á hverja vinnustund og stuðla að betri nýtingu auðlinda og að það geti reynst hagstæðara í einhverjum tilvikum að selja hráefnið óunnið úr landi en að vinna það á Íslandi.
Skýrsluna má nálgast hér.