Tekjur Ísafjarðarbæjar af útsvari og frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga eru samkvæmt fjárhagsáætlun ársins. Er því ekki að sjá að covid19 veiran hafi enn sem komið er höggvið skarð í tekjur sveitarfélagsins.
Þetta kemur fram í minnisblaði um skatttekjur sveitarfélagsins fyrstu níu mánuði ársins sem lagt var fyrir bæjarráð á mánudaginn.
Tekjur af útsvari er samtals 1.703 milljónir króna sem er nákvæmlega það sem gert var ráð fyrir.
Þá eru tekjur sveitarfélagsins frá Jöfnunarsjóð sveitarfélaga 609 milljónir króna fyrstu níu mánuðina sem er einnig það sem gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun ársins. Sveitarfélögin hafa varað við því að vegna mikils samdráttar í tekjum ríkissjóðs muni tekjur til Jöfnunarsjóðsins lækka að sama skapi sem svo aftur veldur því að sveitarfélögin fá lægri framlög frá sjóðnum. Þetta er ekki orðin raunin enn sem komið er samkvæmt þessu yfirliti.
Launakostnaður nánast skv. áætlun
Helsti útgjaldaliður sveitarfélaga er launakostnaður. Samkvæmt yfirlitinu er hann nánaast samkvæmt fjárhagsáætluninni. Launakostnaðurinn er orðinn 2.151 milljón króna í lok september sem er tæplega 8 milljónum króna hærra en áætlunin. Munurinn er um þriðjungur úr einu prósenti.