Minni grímuskylda og óheft útivist

Leikskólinn Glaðheimar í Bolungarvík

Samkvæmt nýrri reglugerð sem gildi tekur í dag verða nemendur 5.–7. bekk grunnskóla undanþegin grímuskyldu og tveggja metra nálægðartakmörkunum, líkt og yngri börn í grunnskóla og leikskólabörn.

Grímuskylda kennara gagnvart börnum á leikskólaaldri og nemendum í 1.-7. bekk er einnig afnumin. Þá er heimilt að nemendahópar blandist á útisvæðum leik- og grunnskóla.

Íþrótta-, æskulýðs- og tómstundastarf barna í leik- og grunnskólum verður einnig heimilað.

Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið þetta í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis og í samráði við mennta- og menningarmálaráðuneytið.

Helstu reglur í leikskólum:

– Fullorðnir þurfa að gæta að 2 metra nálægðartakmörkum. Sé ekki unnt að tryggja 2 metra nálægðartakmörkun milli starfsfólks skal notast við andlitsgrímur.

– Starfsfólki ber ekki skylda til að nota andlitsgrímur í samskiptum við leikskólabörn.

– Ekki skulu vera fleiri en 10 fullorðnir einstaklingar í hverju rými, þó er starfsmönnum heimilt að fara milli hópa.

– Ekki skulu vera fleiri en 50 leikskólabörn í hverju rými. Nálægðartakmörkun tekur ekki til barna á leikskólaaldri.

– Ákvæði um blöndun hópa, grímuskyldu og nálægðartakmörkun gilda ekki á útisvæðum leikskóla.

– Skipulagt íþrótta-, æskulýðs- og tómstundastarf barna á leikskólaaldri er heimilt, þó að hámarki 50 börn saman. Ekki þarf að halda sömu hópaskiptingu og í leikskólastarfi.

Helstu reglur í grunnskólum:

– Starfsfólk og nemendur í 8.–10. bekk þurfa að gæta að 2 metra nálægðartakmörkum. Sé ekki unnt að tryggja lágmarksfjarlægð skal það notast við andlitsgrímur.

– Starfsfólki ber ekki skylda til að nota andlitsgrímur í samskiptum við nemendur í 1.–7. bekk.

– Ekki skulu vera fleiri en 10 starfsmenn í hverju rými, þó er starfsmönnum heimilt að fara milli hópa.

– Nemendur í 1.–7. bekk eru undanþegnir 2 metra nálægðartakmörkun sem og grímuskyldu.

– Ekki skulu vera fleiri en 50 nemendur í 1.–4. bekk í hverju rými.

Ekki skulu vera fleiri en 25 nemendur í 5.–10. bekk í hverju rými.

– Í sameiginlegum rýmum skóla, svo sem við innganga, í anddyri, á salerni og göngum, er heimilt að víkja frá fjöldatakmörkun og reglu um blöndun hópa að því gefnu að nemendur í 8.–10. bekk og starfsfólk notist við andlitsgrímu.

– Á útisvæðum grunnskóla gilda ekki ákvæði um blöndun hópa, grímuskyldu eða nálægðartakmörkun milli nemenda.

– Halda skal sömu hópaskiptingu nemenda í grunnskólastarfi, í félagsmiðstöðvum og á frístundaheimilum þannig að ekki verði blöndun milli nemendahópa.

– Skipulagt íþrótta-, æskulýðs- og tómstundastarf barna á grunnskólaaldri er heimilt, þ.e. að hámarki 50 börn í 1.–4. bekk og að hámarki 25 í 5.–10. bekk. Ekki þarf að halda sömu hópaskiptingu og er í grunnskólastarfi.

DEILA