Ályktun frá Verkalýðsfélaginu Framsýn á Húsavík, sem birt var á bb.is í gær varpað nýju ljósi á átökin um ríkisstyrktu flugleiðirnar í innanlandsfluginu. Fram kemur í ályktuninni að óttast er um áætlunarflugið til Húsavíkur, sem Flugfélagið Ernir heldur úti, en það er án ríkisstyrks.
Það sem Húsvíkingarnir óttast er að Flugfélagið Ernir hafi ekki lengur bolmagn til þess að halda úti Húsavíkurfluginu eftir að hafa misst flugið til Bíldudals og Gjögurs. Fyrirsjáanlegt er að Ernir verði nú að skera niður og fækka fólki og jafnvel flugvélum. Það gæti leitt til þess að félagið verði að hætta fluginu til Húsavíkur.
Á því myndi Air Iceland Connect líklega græða. Farþegar til Húsavíkur myndi fljúgja til Akureyrar og þannig myndi Akureyrarflug Air Iceland Connect styrkjast.
Þá gæti það einnig verið hagur Air Iceland Connect varðandi Vestmannaeyjar. Flugfélagið Ernir hefur haldið uppi áætlunarflugi þangað og ef Ernir hætta verður sá markaður alveg opinn.
Spyrja mætti hvort Norlandair myndi ekki færa út kvíarnar og huga að flugi til Hússavíkur og Vestmannaeyja í stað Flugfélagsins Ernis. Það væri örugglega álitlegur kostur fyrir Norlandair.
En þá koma til tengslin milli Norlandair og Air Iceland Connect. Þau eru allnokkur. Í fyrsta lagi er Flugfélag Íslands hf hluthafi í Norlandair með 7,65% hlutafjár. Air Iceland Connect og Flugfélag Íslands eru ekki beinlínis óskyldir aðilar og samkvæmt upplýsingum Bæjarins besta er yfirvofandi að félögin verði sameinuð undir nafni Flugfélags Íslands, sem reyndar hefur lögheimili á Akureyrarflugvelli.
Í öðru lagi kemur fram í svörum Vegagerðarinnar að Norlandair ehf. er í samstarfi við Air Iceland Connect með aðstöðu og farmiðasölu í Reykjavík og nýtir bókunarvél félagsins við farmiðasölu.
Í þriðja lagi eru svo athyglisverðar upplýsingar í úrskurði Kærunefndar útboðsmála frá 30. október varðandi samstarf Norlandair og Air Iceland connect. Þar kemur fram að Norlandair er vanbúið í flugvélaflota og sækir sér stuðning til AIC um svonefndar DASH8 flugvél og „hafi fyrirtækið hafið samstarf við Air Iceland Connect til skamms tíma eða þar til félagið gæti lokið þeirri innleiðingu og þjálfun sem nauðsynleg væri til þess að geta byrjað að fljúga á DASH 8 100/200 flugvél.“
Samstarf Norlandair við Air Iceland Connect eða Flugfélag Íslands verður svo til þess að Norlandair uppfyllir kröfur útboðsins.
Þetta samstarf varð einmitt nefndarmönnum í Samgöngunefnd Alþingis starsýnt á þegar málið var rætt þar í síðustu viku. Nefndin ritaði Vegagerðinni bréf með hvorki fleiri né færri en 23 spurningum. Þar eru spurningar um undirverktaka og hlut hans.
Spurt er hvar í útboðsskilmálum gert er ráð fyrir því að byggi bjóðandi á getu annars fyrirtækis (undirverktaka) skuli það fyrirtæki skila inn sömu upplýsingum og bjóðandi með tilboðsgögnum, og spurt er hvort það hafi verið gert? Og hver er undirverktakinn? Þessar upplýsingar komu sem sé ekki fram þegar gögnum var skilað inn í útboðinu.
En fjárhagslega traustir eignaraðilar eru að Norlandair. Samherji er þriðji stærsti eignaraðillinn með 11,53% hlutafjár og KEA eignir eiga 21,87% og eru næst stærsti hluthafinn. Svo eru flugfélögin Air Greenland og Mýflug einnig hluthafar með 25% og 8,14% auk Flugfélags Íslands sem á 7,65%.
Flugleiðirnar voru boðnar út af því að það er samkeppni í fluginu milli einstakra flugrekenda. Ef svo væri ekki hefur útboðið litla þýðingu, að minnsta kosti verður það ekki til þess að samkeppnin lækki reikninginn fyrir ríkið.
Að athuguðu máli er nokkuð augljóst að áhyggjur verkalýðsfélagsins Framsýn á Húsavík eru ekki úr lausu lofti gripnar.
-k