Húsavík: áætlunarflug Ernis gæti verið í hættu

Mynd: framsyn.is

Stjórn Framsýnar samþykkti í morgun ályktun er varðar vinnubrögð Vegagerðarinnar/Ríkiskaupa og viðkemur útboði á flugi til Gjögurs og Bildudals.

Flugfélagið Ernir hefur um árabil séð um áætlunarflug á þessa staði samkvæmt útboði. Framsýn telur ekki er ólíklegt að áætlunarflug til Húsavíkur sé í hættu vegna þessa, nú þegar liggur fyrir að Ernir mun ekki halda ríkisstyrktu leiðunum til Gjögurs og Bíldudals.

 

Ályktun:

„Framsýn stéttarfélag deilir áhyggjum sínum með  sveitarstjórnarmönnum og Samtökum atvinnurekenda á sunnanverðum Vestfjörðum (SASV) vegna flugmála. Samtökin hafa sent frá sér yfirlýsingu vegna samnings Vegagerðarinnar við Norlandair um áætlunarflug til Bíldudals og Gjögurs, sem þýðir að Flugfélagið Ernir hættir flugi á þessa staði á Vestfjörðum.

 

Flugfélagið Ernir hefur þjónað Vestfirðingum í 50 ár við afar krefjandi aðstæður og nýlegar fréttir um að nú eigi félagið skyndilega að hverfa af vettvangi eftir umdeilt útboð er reiðarslag fyrir svæðið, segir í yfirlýsingu SASV.

 

Samkvæmt fréttum liggur fyrir að Vegagerðin hefur viðurkennt að Ríkiskaup hafi gert mistök við mat tilboða. Eins hefur komið fram hjá kærunefnd útboðsmála að Vegagerð/Ríkiskaup hafa brotið lög um opinber útboð við val á tilboði Norlandair, sbr. ákvörðun kærunefndarinnar frá 30. október sl. 

 

Vinnubrögð sem þessi kalla á sérstaka skoðun á meðferð málsins í stjórnkerfinu og að hlutaðeigandi aðilar verði dregnir til ábyrgðar. Menn eiga ekki að komast upp með svona stjórnsýslu í umboði stjórnvalda.

 

Framsýn stéttarfélag hefur átt afar gott samstarf við Flugfélagið Ernir um að byggja upp flugleiðina Húsavík-Reykjavík. Með samningum við flugfélagið hefur tekist að bæta búsetuskilyrði í Þingeyjarsýslum auk þess sem flugsamgöngur hafa eflt ferðaþjónustuna og atvinnulífið í heild sinni á svæðinu.

 

Vissulega hriktir í stoðum Flugfélagins Ernis, sem nú missir ákveðnar ríkisstyrktar flugleiðir. Samningur Vegagerðarinnar/Ríkiskaupa við Erni hefur án efa leitt til þess að flugfélagið hefur náð að byggja sig upp á undanförnum árum með því að bæta flugvélakost og fjölga áfangastöðum, eins og til Húsavíkur.

 

Verði þessari ákvörðun ekki hnekkt gæti það leitt til þess að dregið verði úr flugi til Húsavíkur eða það leggist jafnvel af, með ófyrirséðum afleiðingum fyrir íbúa í Þingeyjarsýslum.

 

Það er eitthvað sem má ekki gerast, Framsýn stéttarfélag mun berjast fyrir því að svo verði ekki og krefst þess að útboðið verði endurskoðað.“

DEILA