Byggðastofnun hefur frá áramótum 2013/2014 gert árlega könnun á staðsetningu starfa á vegum ríkisins.
Með störfum á vegum ríkisins er átt við stöðugildi greidd af Fjársýslunni, stöðugildi hjá opinberum hlutafélögum og stofnunum og stöðugildi hjá stofnunum sem hafa meirihluta rekstrartekna sinna af fjárlögum.
Miðað er við hvar störfin eru unnin, en ekki búsetu starfsmanna.
Fyrir liggja nú tölur um fjölda stöðugilda við áramót 2019/2020. Stöðugildin voru 24.980 þann 31. desember 2019, þar af voru 15.716 skipuð af konum og 9.263 af körlum.
Á árinu 2019 fjölgaði stöðugildum um 199 á landsvísu eða 0,8%. Mest fækkun stöðugilda var hjá ISAVIA og Íslandspósti, en mest fjölgun hjá Háskóla Íslands og Landspítala.
Frekari tölulegar upplýsingar svo sem skiptingu niður á landshluta má sjá í nýútkominni skýrslu.