Þingeyri: Tjarnarreitur í deiliskipulag

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkti í síðustu viku að taka  til meðferðar tillögu að deiliskipulagi fyrir Tjarnarreit á Þingeyri, unnin af Verkís 2020.

Skipulagssvæðið er um 2,5 ha að stærð. Deiliskipulagssvæðið er á þegar byggðu svæði og þar eru íbúðir, gistiheimili, dvalarheimili, heilsugæsla og spennistöð ásamt geymsluhúsi á lóð kirkjugarðs. Gert er ráð fyrir tveimur nýjum lóðum en núverandi lóðir eru
afmarkaðar og aðlagaðar að aðstæðum. Á deiliskipulagssvæðinu er einnig kirkjugarður og er hann vel gróinn trjá- og runnagróðri. Gert er ráð fyrir opnum grænum svæðum, en æskilegt er að gróðursetja tré og runna á þeim svæðum til skjólmyndunar og yndisauka og til samræmis við almennt yfirbragð bæjarins.

Í tillögu að deiliskipulagi segir að skipulagssvæðið hafi byggst upp á löngum tíma og var elsta húsið á svæðinu flutt þangað árið 1920. Í gegnum tíðina hafa ekki farið fram
nákvæmar mælingar á lóðum né skilgreind lóðamörk, fyrir utan áætlaða
stærð í leigusamningum við Þingeyrarhrepp og verða gerðar bætur þar um
með þessari tillögu að deiliskipulagi.

Helstu markmið með deiliskipulagi fyrir Tjarnarreitinn eru að:

• skilgreina lóðamörk og lóðastærð
• skilgreina byggingarreiti
• gera breytingar á götum og göngustígum
• setja fram nýjar kvaðir

 

 

DEILA