Vegagerðin vinnur að því af kappi þessar vikurnar að bjóða út þverun Þorskafjarðar. En það er einn hluti af nýrri vegagerð um Gufudalssveit, sem mun stytta þjóðveginn um 23 km.
Magnús Valur Jóhannsson, framkvæmdastjóri hjá Vegagerðinni segir að útbioðsgögn séu tilbúin og unnið sé að ljúka samningum við landeigendur jarðanna Kinnarstaða og Þórisstaða. Hann segir að aðilar séu að nálgast samkomulag og segist vongóður um að samningarnir verði í höfn í mánuðinum og að verkið geti þá farið í útboð.
Annar verkhluti sem unnið er að er vegagerð með tengingu í Djúpadal. Sú verkhluti kostar um 400 milljónir króna og við blasir að sá vegur verður því aðeins til gagns að farið verður Þ-H leiðin í vestanverðum Þorskafirði. Trúlega mun Vegagerðin því doka við með þá vegagerð þar til endanlega er ljóst með þá leið sem verður þegar annaðhvort samningar hafa náðst við landeigendur Hallsteinsness og Grafar eða Vegagerðin hefur fengið eignarnámsheimild. Um framgang þess hluta málsins sagði Magnús að ekki hefðu náðst samningar við landeigendur og fyrirhugað væri að reyna frekar, en koma myndi fljótlega að því að Vegagerðin tæki af skarið með ósk um eignarnám.