Umhverfisstofnun vinnur að stofnun þjóðgarðs á sunnanverðum Vestfjörðum. Stofnunin vinnur nú ásamt samstarfshópi að undirbúningi friðlýsingar fyrir svæði sem m.a. nær til Vatnsfjarðar, Surtarbrandsgils, Geirþjófsfjarðar og jarðanna Dynjanda og Hrafnseyrar við Arnarfjörð
Forsaga málsins er að í september 2019 færði RARIK ríkinu jörðina Dynjanda að gjöf. Við undirritun samkomulags vegna gjafarinnar staðfestu stjórnvöld að stefnt væri að frekari friðlýsingu jarðarinnar og vatnasviðs fossins á Dynjandisheiði.
Í byrjun ársins 2020 hófst vinna með Vesturbyggð, Ísafjarðarbæ og Umhverfisstofnun þar sem fyrirhugað var að vinna að mögulegri stækkun á náttúruvættinu Dynjanda og friðlandinu í Vatnsfirði sem er í landi Brjánslækjar. Sú vinna hófst í kjölfar gjafar RARIK. Fljótlega komu fram hugmyndir um að tengja verndarsvæðin saman í eitt stærra friðlýst svæði vegna náttúru- sögu og menningarverðmæta, sem eru alltumlykjandi á þessu svæði. Í kjölfarið var ákveðið að stofna stærri samstarfshóp og bættust fulltrúar forsætisráðuneytisins, mennta- og menningarmálaráðuneytisins og Landgræðslusjóðs í hópinn.
Á Fjórðungsþingi Vestfirðinga í síðasta mánuði var ályktar um þjóðgarða á Vestfjörðum, en hugmyndir hafa verið um friðlýsingu Látrabjargs og þjóðgarð þar svo og skilgreiningu á verndarsvæði Breiðafjarðar auk hugmynda um friðun við Dynjanda.
Ályktað var að borið verði undir sveitarfélög á Vestfjörðum hvort þau vilji í einhverju breyta vali á svæðum samkvæmt fyrirliggjandi tillögum í C9 verkefninu í Byggðaáætlun 2018-24 í ljósi aukinnar umræðu um stofnun þjóðgarða. „Í framhaldinu verði greindar sviðsmyndir fyrir svæðin til að leggja mat á möguleg hagræn áhrif af stofnun þjóðgarða á þeim svæðum. Hugmyndir verði mótaðar í víðtæku samráði við heimafólk, fyrirtæki og stjórnvöld um þróun svæðanna og greind tækifæri og mögulegar áskoranir. Afurðir verkefnisins verði sviðsmyndir og aðgerðaáætlun um næstu skref.“
.