Ávinningur af fiskeldi er mikill fyrir íslenskt samfélag og sérstaklega eru áhrifin jákvæð á þau byggðarlög þar sem eldið er starfrækt. Alvarlegar efnahagsþrengingar vegna kórónuveirunnar draga enn betur fram mikilvægi slíkrar nýsköpunar og auðlindanýtingar fyrir landsmenn. Yfirlýst stefna stjórnvalda er að byggja áfram upp fiskeldi í samræmi við ráðgjöf vísindamanna og tryggja rannsóknir og vöktun áhrifa á lífríkið.
Í því ljósi er frumkvæði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um að kanna hvort rétt sé að lýsa yfir banni við eldi í sjókvíum í Eyjafirði, Jökulfjörðum og hluta Norðfjarðarflóa merkilegt fyrir margra hluta sakir.
Ráðherra hefur ekki heimild samkvæmt fiskeldislögum til að loka hafsvæðum ef ekki liggja fyrir lögbundnar vistfræðilegar rannsóknir, þ.e. burðarþolsmat og áhættumat erfðablöndunar, til að ákvarða hvort fiskeldi hafi neikvæð áhrif á umhverfið. En fyrir liggur að ráðherra hefur ekki óskað eftir burðarþolsmati fyrir firðina þrjá sem um ræðir og ekkert áhættumat erfðablöndunar er til um þau svæði.
Þá eru réttaráhrif auglýsingar landbúnaðarráðherra frá 2004, þar sem laxeldi í sjókvíum var bannað á stórum hluta við strendur landsins, í raun engin. Auglýsingin er heldur ekki lengur grundvöllur pólitískrar sáttar um starfsemi fiskeldis, þar sem firðirnir þrír sem ráðherra athugar nú hvort loka skuli eru utan bannsvæðis auglýsingarinnar. Eina raunhæfa sáttin um uppbyggingu fiskeldis verður að vera byggð á vísindalegri ráðgjöf.
Hvar á að vera fiskeldi?
Markmið fiskeldislaga er að skapa skilyrði til uppbyggingar fiskeldis ásamt því að stuðla að ábyrgu fiskeldi og tryggja verndun villtra nytjastofna. Eina leiðin til að samþætta þessi tvö markmið er að byggja allar ákvarðanir um hvar óhætt er að starfrækja eldi á bestu fáanlegri vísindalegri ráðgjöf.
Allar breytingar Alþingis á fiskeldislögum síðustu ár hafa verið þess eðlis að leggja auknar kröfur á stjórnsýslustofnanir og fiskeldisfyrirtæki með það að markmiði að stuðla enn frekar að verndun lífríkis og draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum. Niðurstaða löggjafans er því sú að fiskeldi er leyft þar sem því verður við komið án neikvæðra vistfræðilegra áhrifa.
Til að starfrækja fiskeldi, t.d. í Steingrímsfirði á Ströndum, þarf að uppfylla veigamikil skilyrði fiskeldislaga. Í fyrsta lagi þarf að liggja fyrir burðarþolsmat. Í öðru lagi þarf að liggja fyrir svæðaskipting byggt á burðarþoli, að teknu tillit til laga um skipulag haf- og strandsvæða. Í þriðja lagi þarf áhættumat erfðablöndunar að ná yfir Steingrímsfjörð. Í fjórða lagi þarf að liggja fyrir úthlutun eldissvæða af hálfu ráðherra og í fimmta lagi þarf að liggja fyrir rekstrar- og starfsleyfi, sem fæst einungis ef fyrir liggur staðfest mat á umhverfisáhrifum um starfsemi fiskeldis í Steingrímsfirði.
Auglýsing um bann við fiskeldi í Steingrímsfirði einfaldlega víkur fyrir rétthærri fiskeldislögum og hefur enga þýðingu samkvæmt þeim.
„Hægt að endurskoða friðun svæða síðar í ljósi reynslunnar“
Forsaga friðunar á stórum svæðum fyrir sjókvíaeldi er sú að Veiðimálastofnun, sem þá var og hét, lagði til í greinargerð árið 2001 friðun svæða fyrir eldi laxfiska í sjókvíum. Markmiðið var að friða mörg helstu laxveiðisvæði landsins og beina fiskeldi á ákveðin svæði þar sem reynsla fengist af eldinu. Svo var sérstaklega tiltekið í greinargerðinni að hægt yrði að endurskoða friðun svæða síðar í ljósi reynslunnar.
Augljóslega hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan Veiðimálastofnun lagði fram sínar tillögur að friðun svæða og tímabært að endurskoða fyrirkomulagið, bæði í ljósi reynslunnar og nýrrar löggjafar sem kveður sérstaklega á um aðferðafræði til að meta vistfræðileg áhrif.
Þegar ákveðið var að loka Steingrímsfirði, Skagafirði og Þistilfirði fyrir fiskeldi var um að ræða almenna aðgerð án sérstakra rannsókna fyrir hvert svæði og fyrir setningu laga um fiskeldi. Hér er ekki verið að leggja til fiskeldi í öllum þessum fjörðum heldur að fram fari rannsókn á burðarþoli og gert verði áhættumat erfðablöndunar á þeim svæðum hafa verið lokuð og helst gætu hentað undir sjálfbært fiskeldi.
Vísindin ráði för
Mikið er undir fyrir íslenskt efnahagslíf að stjórnvöld fylgi áfram þeirri stefnu að byggja ákvarðanir um framþróun fiskeldis á ráðgjöf vísindamanna.
Það er því rökrétt að ætla að ráðherra taki ekki ákvörðun um friðun Eyjafjarðar, Jökulfjarða og Norðfjarðarflóa nema lögbundnar vistfræðilegar rannsóknir kveði á um nauðsyn slíkrar friðunar. Þá er ekkert í vegi fyrir ráðherra að fara eftir vilja Alþingis óska eftir burðarþolsmati á öllum þeim svæðum sem heppileg kunna að vera fyrir starfsemi fiskeldis í umhverfis- og samfélagslegu tilliti.
Vísindaleg ráðgjöf verður að ráða för til að tryggja að auðlindir landsins séu nýttar með skynsamlegum og ábyrgum hætti í þágu allra landsmanna. Íbúar við sjávarsíðuna þar sem tækifæri eru í fiskeldi eiga það enn fremur skilið. Gera má ráð fyrir að meiri sátt verði þannig náð um uppbyggingu fiskeldis ef stjórnvöld fylgja þeirri stefnu fastar eftir.
Teitur Björn Einarsson
Höfundur er lögmaður og 1. varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi