Ljóðin hans pabba hefur að geyma kveðskap Eðvarðs Sturlusonar (f.1937) frá Súgandafirði eða Edda Sturlu eins og hann er oftast kallaður.
Útgefandi bókarinnar er dóttir hans, Sigrún Edda.
Höfundur byrjaði snemma að yrkja en segja má að hann hugsi upphátt í stuðlum og höfuðstöfum. Hann semur ljóðakveðjur við hin ýmsu tilefni til fjölskyldu og samferðamanna og yrkir um flest það sem fyrir augu og eyru ber. Hann gefur okkur innsýn í hið daglega líf, þjóðfélagsleg málefni, fólkið og fjörðinn sem er honum svo kær.
Eðvarð er hagorður, hugkvæmur, orðfær og fyndinn. Víða má greina hlýjar tilfinningar til samferðamannanna en svo er líka skotið föstum skotum. Eðvarð er óhræddur við að segja meiningu sína og vanur að komast strax að efninu, ákveðið og umbúðalaust.
Ljóðin eru ort af mikilli fimi, brageyrað er næmt og hrynjandi ljóðanna falleg og grípandi. Virðingin fyrir æskustöðvunum er mikil og gefur sterkan undirtón í gegnum bókina líkt og kemur fram í ljóði hans um Súgandafjörð.
Ég hef ævina alla
unað við þennan fjörð,
fáir fegurri staðir
finnast á þessari jörð.