Fjöldi gistinátta rýkur upp

Gistinætur á hótelum í febrúar voru 331.800 sem er 21% aukning miðað við febrúar 2016. Gistinætur erlendra gesta voru 89% af heildarfjölda gistinátta í mánuðinum en þeim fjölgaði um 21% frá sama tíma í fyrra á meðan gistinóttum Íslendinga fjölgaði um 18%.

Flestar gistinætur á hótelum í febrúar voru á höfuðborgarsvæðinu eða 227.100 sem er 13% aukning miðað við febrúar 2016. Um 68% allra gistinátta voru á höfuðborgarsvæðinu. Næstflestar voru gistinætur á Suðurlandi eða um 48.200. Erlendir gestir með flestar gistinætur í febrúar voru Bretar með 107.600 gistinætur, Bandaríkjamenn með 69.900 og Þjóðverjar með 20.300, en íslenskar gistinætur í febrúar voru 37.400.

Í gögnum Hagstofunnar eru gistinætur á Vestfjörðum og Vesturlandi taldar saman. Þeim fjölgaði um 34% í febrúar samanborið við febrúar 2016. Fjölgun gistinátta er enn skarpari sé litið yfir lengra tímabil. Á tímabilinu mars 2015 til febrúar 2016 voru gistinætur á Vestfjörðum og Vesturlandi 124.248, en á tímabilinu mars 2016 til febrúar 2017 voru þær 176.357 eða fjölgun um 42%.

Á tólf mánaða tímabili frá mars 2016 til febrúar 2017 var heildarfjöldi gistinátta á hótelum á Íslandi 3.969.500 sem er 33% aukning miðað við sama tímabil árið áður.

Smári

DEILA