BAADER og SKAGINN 3X sameina krafta sína

BAADER og SKAGINN 3X hafa sent frá sér fréttatilkynningu þar sem fram kemur að gengið hefur verið frá samningum um kaup BAADER á meirihluta í SKAGANUM 3X. Viðskiptin eru háð venjubundnum fyrirvörum um samþykki opinberra aðila þar á meðal samþykki samkeppnisyfirvalda. Ráðgert er að þeim fyrirvörum verði aflétt í ársbyrjun 2021.

https://www.skaginn3x.com/

Frumkvæði Skagans 3X

Í tilkynningu til starfsmanna Skagans 3X í morgun kemur fram að samkomulagið eigi sér langan aðdraganda og megi rekja til þeirrar ákvörðunar stjórnar SKAGANS 3X að leita eftir öflugu samstarfsfyrirtæki sem stutt gæti við frekari vöxt fyrirtækisins. Fram kemur að  samkomulagið opnar aðgang fyrirtækisins að stærsta sölukerfi í sjávarútvegi. Um 1500 starfsmenn munu starfa hjá báðum fyrirtækjunum víðs vegar um heim. Þar segir Ingólfur Árnason, forstjóri ennfremur að markmiðið sé  að nýta tækifærin er skapast í þessu samstarfi til þess að efla Skagann 3X  á öllum sviðum starfseminnar innanlands og utan.

 

BAADER er þýskt fjölskyldufyrirtæki með rúmlega 100 ára sögu í framleiðslu tæknibúnaðar fyrir matvælaiðnaðinn og hefur haft mjög sterka stöðu á markaðnum.

 

„Samstarf þetta er okkur mikið gleðiefni og ánægjulegt að geta í sameiningu boðið viðskiptavinum okkar heildstætt vöruframboð af framúrskarandi lausnum við vinnslu sjávarafurða“ segir Petra Baader, forstjóri BAADER.

„Með því að samtvinna áratuga sköpun, þekkingu og reynslu BAADER við okkar sérþekkingu byggða á samstarfi og nálægð við öflugan sjávarútveg munum við efla þróun og nýsköpun til muna“ segir Ingólfur Árnason, forstjóri SKAGANS 3X.

Ingólfur Árnason mun áfram gegna starfi forstjóra SKAGANS 3X og mun njóta liðsinnis núverandi stjórnendateymis fyrirtækisins. Að uppfylltum fyrirvörum samningsins mun sölu- og markaðsstarf SKAGANS 3X verða samþætt hinu öfluga og víðfeðma sölukerfi BAADER.

Þar til fyrirvörum samnings verður aflétt mun núverandi starfsemi fyrirtækjanna haldast óbreytt.

 

DEILA