Skattahækkun kemur verst við landsbyggðina

Ferðamenn á Látrabjargi.

Áform ríkisstjórnarinnar um að hækka ferðaþjónustuna úr lægra virðisaukaskattþrepi upp í það hærra kemur eins og blaut tuska framan í ferðaþjónustufyrirtæki landsins. Þetta kom fram á neyðarfundi Samtaka ferðaþjónustunnar í gær. Í ályktun sem samþykkt var á fundinum segir að gengisstyrking og kostnaðarhækkanir stefni nú þegar afkomu fyrirtækja í ferðaþjónustu í mikla hættu, en með boðuðum skattahækkunum ríkisstjórnarinnar versni samkeppnishæfni Íslands til mikilla muna. Í ályktuninni segir að afleiðingarnar verða alvarlegastar fyrir landsbyggðina sem á nú þegar undir högg að sækja þegar kemur að ferðaþjónustu. Samkvæmt upplýsingum Samtökum ferðaþjónustunnar fer Ísland í annað sæti yfir hæstan virðisaukaskatt á ferðaþjónustu í heiminum komi skattahækkunin til framkvæmda, en dönsk ferðaþjónustufyrirtæki greiða 25 prósenta virðisaukaskatt.

„Ferðaþjónusta er í eðli sínu alþjóðleg atvinnugrein. Íslensk ferðaþjónustufyrirtæki starfa því á alþjóðlegum markaði og í samkeppni við erlenda áfangastaði þar sem ferðaþjónustan er almennt í lægri þrepum virðisaukaskattskerfisins. Það hefur sýnt sig að þau lönd sem eru t.a.m. með gististaði í efri skattþrepum hafa lotið í lægra haldi í samkeppni við aðra áfangastaði. Tillögur um hækkun á virðisaukaskatti vega þannig alvarlega að samkeppnishæfni Íslands,“ segir í ályktun Samtaka ferðaþjónustunnar.

Smári

DEILA