Guðmundur Harðarson flugstjóri frá Bolungarvík er gestur í nýjum hlaðvarpsþætti, Flugvarpinu sem nú er kominn út. Þar segir hann frá upphafsárum á sínum ferli sem atvinnuflugmaður hjá flugfélaginu Erni á Ísafirði í lok níunda áratugsins og m.a. frækilegum sjúkraflugsferðum í krefjandi skilyrðum.
Guðmundur segir að hann hafi þurft að hafa flugvélina alveg í puttunum á þessum árum við störf í þessum erfiðum aðstæðum.
Flugfélagið Ernir fór á þeim tíma í kringum 200 sjúkraflug á ári, víðs vegar um Vestfirði ásamt því að sinna póstflugi milli allra helstu þéttbýlisstaða í fjórðungnum þegar engin voru jarðgöngin. Guðmundur flýgur í dag á milli heimsálfa hjá Cargolux á B747 og hlaut nýverið riddarakross stórhertogans af Lúxemborg fyrir störf sín þar.
Flugvarpið er nýr hlaðvarpsþáttur um flugmál í umsjá Jóhannesar Bjarna Guðmundssonar flugmanns hjá Icelandair og fyrrum fréttamanns hjá Ríkisútvarpinu.
Þáttinn má nálgast á Apple podcast og á Spotify á eftirfarandi slóð.