„Meirihluti áhafnar frystiskipsins, Júlíusar Geirmundssonar Ís 270, sem gerður er út af Hraðfrystihúsinu – Gunnvöru hf, á Ísafirði, reyndist smitaður af COVID-19.
Þetta varð ljóst eftir að sýni voru tekin úr allri áhöfninni, þegar skipið kom til hafnar í gærkvöldi til olíutöku á Ísafirði. Veiðiferðin hafði þá staðið í þrjár vikur og nokkrir í áhöfn verið með flensueinkenni. Þegar skipið kom til hafnar fóru heilbrigðisstarfsmenn um borð til sýnatöku, en enginn úr áhöfn fór í land.
Að sýnatöku lokinni lagði skipið úr höfn, en niðurstöður úr sýnatöku komu ekki fyrr en nú undir kvöld. Þegar þær lágu fyrir var veiðum þegar hætt og skipinu snúið til hafnar og er það væntanlegt til Ísafjarðar á morgun. Enginn um borð virðist vera alvarlega veikur. Útgerðin mun ákveða næstu skref í fullu samráði við umdæmislækni sóttvarna á Vestfjörðum.“
Ofangreint kemur fram í tilkynningu sem var að berast frá stjórnarformanni Hraðfrystihússins Gunnvarar hf.
Í gær barst Bæjarins besta ábending um að smit væri um borð og hafði samband við útgerðarstjóra fyrirtæksins. Hann kannaðist ekki við að smit væri um borð og sagði þá að það væri að koma til Ísafjarðar til þess að taka olíu.
Nú er staðfest að skipið kom inn í gær til sýnatöku.