Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið lauk í ágúst sl. frumkvæðisathugun á samstarfssamningum sveitarfélaga með leiðbeiningum um almenn sjónarmið sem gilda um samvinnu þeirra, form samvinnu og lagakröfur sem gerðar eru til slíkra samninga.
Þá hafa sveitarfélögin öll fengið bréf þar sem þau eru upplýst um athugasemdir ráðuneytisins við einstaka samninga og þeim gefinn frestur til að gera úrbætur.
Tilgangur athugunarinnar var að afla heildstæðra upplýsinga um samstarfssamninga sveitarfélaga og leggja mat á hversu vel samningarnir samræmast þeim kröfum sem gerðar eru til slíkra samninga í lögum.
Samstarfsverkefni sveitarfélaga eru ólík í eðli sínu enda veita ákvæði sveitarstjórnarlaga sveitarfélögum víðtæka heimild til að hafa samvinnu um framkvæmd afmarkaðra verkefna.
Meðal algengustu verkefna sem sveitarfélög framkvæma með þessum hætti eru verkefni á sviði barnaverndar- og félagsmála, brunamála, grunn- og leikskóla, þjónustu fyrir fatlað fólk, og skipan og rekstur heilbrigðisnefnda og heilbrigðiseftirlits.
Samningarnir skiptast, eftir landshlutum, með neðangreindum hætti:
Samstarfssamningar á höfuðborgarsvæðinu eru rúmlega 30 talsins og gerði ráðuneytið athugasemdir við 11 samninga.
Samstarfssamningar á Suðurnesjum eru um tíu og gerði ráðuneytið athugasemdir við þrjá samninga.
Samstarfssamningar á Vesturlandi eru tæplega 40 og gerði ráðuneytið athugasemdir við 19 samninga.
Samstarfssamningar á Vestfjörðum eru um 15 og gerði ráðuneytið athugasemdir við níu samninga.
Samstarfssamningar á Norðurlandi vestra eru tæplega 20 og gerði ráðuneytið athugasemdir við 13 samninga.
Samstarfssamningar á Norðurlandi eystra eru um 40 og gerði ráðuneytið athugasemdir við 30 samninga.
Samstarfssamningar á Austurlandi eru tæplega 20 og gerði ráðuneytið athugasemdir við 13 samninga.
Samstarfssamningar á Suðurlandi eru um 45 og gerði ráðuneytið athugasemdir við 21 samning.
Ljóst er að mikil vinna er fyrir höndum hjá sveitarfélögunum en þeim var gefinn frestur til 15. nóvember nk. til yfirferðar og lagfæringar á öllum samstarfssamningum og mun ráðuneytið, að þeim tíma liðnum, taka afstöðu til þess hvort ástæða sé til frekari aðgerða af hálfu þess, á grundvelli eftirlitshlutverks þess.