Hagstofan: laxeldið tvöfaldaðist í fyrra

Hagstofa Íslands birti í gær tölur um fiskeldi á síðasta ári. Fram kemur að framleiðslan jókst úr 14 þúsund tonnum 2018 í 26.300 tonn í fyrra. Útflutningsverðmætin voru 24 milljarðar króna og tvöfaldaðist frá árinu áður.

Sé litið á tölur yfir laxeldið sérstaklega, sem langstærsti hluti fiskeldisins,  þá jókst framleiðslan úr 10 þúsund tonnum í 20 þúsund tonn í fyrra. Úflutningsverðmætið fór úr 8,5 milljörðum króna í 18,5 milljarða króna. Fyrir 5 árum var framleiðslan í sjókvíaeldinu aðeins 2 þúsund tonn. Framleiðslan hefur því tífaldast á aðeins 5 árum. Árið 2011 var framleiðslan í laxeldinu aðeins 462 tonn.

Samkvæmt upplýsingum frá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi er búist við því að framleiðslan á þessu ári verði 32 þúsund tonn.

DEILA