Töluverðar breytingar eru í farvatninu á fylgi flokka í Norðvesturkjördæmi samkvæmt nýrri könnun Gallup. Dreifing atkvæða er meiri nú en var í síðustu Alþingiskosningum. Sex flokkar myndu örugglega fá mann kjörinn í kjördæminu í stað 5 nú og sjöundi flokkurinn gæti fengið þingsæti ef jöfnunarsætið félli í hans hlut.
Sem fyrr er Sjálfstæðisflokkurinn með mest fylgi og mælist það 22% í könnuninni. Miðflokkurinn kemur næstur með 16%. Þá Píratar sem mælast með 15% fylgi. Vinstri grænir eru í fjórða sæti í kjördæminu með 14% fylgi. Framsóknarflokkurinn mælist með 12% og Samfylkingin 11%.
Þessu sex flokkar fá allir eitt þingsæti hver og Sjálfstæðisflokkurinn fengi sjöunda þingsætið sem sitt annað þingsæti. En Samfylkingin og annar maður Sjálfstæðisflokksins eru með sama atkvæðahlutfall og fá 6. og 7. kjördæmaþingsætið.
Í Norðvesturkjördæmi eru 7 kjördæmaþingsæti svo báðir flokkarnir fá öruggt þingsæti samkvæmt könnuninni. Við næstu Alþingiskosningar verða áfram sjö kjördæmaþingsæti í Norðvesturkjördæmi, en litlu munaði að eitt þingsæti flyttist þaðan yfir í Suðvesturkjördæmi.
Flokkur fólksins mælist með 8% fylgi í könnuninni og er ekki svo langt frá því að ná kjördæmakosningu auk þess sem þetta fylgi gefur möguleika á því að hreppa jöfnunarsætið í kjördæminu. Gengi það eftir myndu sjö flokkar fá þingsætin átta í kjördæminu.
Viðreisn fær aðeins 3% fylgi og Sósíalistaflokkurinn mælist með aðeins 1%.
Halla Signý Kristjánsdóttir, Framsókn myndi missa þingsæti sitt samkvæmt könnuninni og efsti maður Pirata tæki sæti hennar. Óvíst er hver myndi hreppa jöfnunarsætið en það féll í hlut Sigurðar Páls Jónssonar, Miðflokki síðast.
Könnunin var gerð í september.
Spurt var hvaða flokk svarandi myndi kjósa ef Alþingiskosningar færu fram í dag.