Merkir Íslendingar – Gunnhildur Ósk Guðmundsdóttir

Gunnhildur Ósk Guðmundsdóttir fæddist í miðbæ Reykjavikur 3. október 1930.

Foreldrar hennar voru Guðmundur Einar Þorkelsson matsveinn, f. 20. október 1906, d. 4. október 1968, og kona hans Ingigerður Jónsdóttir, f. 5. október 1912. d. 20. apríl 1998. Systir Gunnhildar, Sigríður f.  1946.  Eiginmaður Gunnhildar var Jón Gunnar Stefánsson bæjarstjóri, f. 26. júní 1931, og  sonur Stefáns Jónssonar, f.  1909, og Ragnheiðar Huldu Þórðardóttur, f. 1910, sem bjuggu í Hafnarfirði.

 

Gunnhildur og Jón Gunnar gengu í hjónaband 25. júní 1955.

Börn þeirra eru:

1) Ingigerður hjúkrunarfræðingur, f. 13. janúar 1955

2) Stefán viðskiptafræðingur, f. 20. júlí 1957.

3) Guðmundur Einar viðskiptafræðingur, f. 18. febrúar 1960.

4) Hulda viðskiptafræðingur, f. 8. desember 1962.

 

Gunnhildur ólst að mestu upp í miðbæ Reykjavikur og hóf þar að starfa við verslunarstörf hjá Ingibjörgu Johnsen og síðar hjá Klæðaverslun Andrésar Andréssonar, svo fljótt sem hún hafði aldur til og til þess tíma að hún átti sitt fyrsta barn 1955.

Árið 1956 fluttist hún til Flateyrar við Önundarfjörð með eiginmanni sínum og bjó þar í 27 ár eða til ársins 1983 en þá fluttu þau hjónin til Grindavíkur og bjuggu þar í 16 ár meðan Jón Gunnar gegndi þar starfi bæjarstjóra.

Eftir það átti hún lögheimili í Vesturbyggð en hafði jafnframt meginaðsetur sitt að Sævangi 1, Hafnarfirði.

Á Flateyri og í Grindavík starfaði hún mikið að félagsmálum. Á Flateyri studdi hún lengi leikfélagið og um langt skeið var hún gjaldkeri kvenfélagsins. Á vegum kvenfélagsins stóð hún meðal annars fyrir byggingu og rekstri leikskóla.

Í Grindavík gekk hún fljótlega til liðs við kvenfélagið og var formaður þess síðustu árin þar í bæ. Gunnhildur starfaði fyrir Körfuknattleiksdeild karla í Grindavík af miklum áhuga. Til þessa hefur hún gegnt starfi gjaldkera í Kvenfélagasambandi Gullbringu- og Kjósarsýslu og beitt sér þar sérstaklega fyrir stuðningi við byggingu Barnaspítala Hringsins.

Jafnframt húsmóður- og félagsstörfum sinnti hún ýmsum störfum eftir því sem þörf var á og tíminn leyfði meðal annars sem fréttaritari Morgunblaðsins.

 

Gunnhildur  lést á Landspítalanum 9. júlí 2001. Útför Gunnhildar fór fram frá Víðistaðakirkju 19. júlí 2001.

__________________________________

Minningarorð Einars Odds Kristjánssonar á útfarardegi Gunnhildar Guðmundsdóttur

 

Gunnhildur Guðmundsdóttir er látin og verður jarðsungin í dag frá Víðistaðakirkju í Hafnarfirði.

Mig langar til að minnast Gunnhildar með nokkrum orðum. Hún var sérstæð kona fyrir margra hluta sakir, glaðvær kona og skemmtileg og virtist hafa óþrjótandi orku til að vinna umhverfi sínu og samfélagi allt sem hún mátti.

Gunnhildur flutti til Flateyrar sem ung kona ásamt manni sínum, Jóni Gunnari Stefánssyni, og þau hjón bjuggu hér um aldarfjórðungs skeið. Gunnhildur var Reykjavíkurstúlka; henni fylgdi nýr og framandi andblær inn í litla sjávarbyggð.

Ég var heimagangur hjá þeim hjónum um árabil og frá þeim tíma á ég margar góðar minningar. Ég held að Gunnhildur hafi starfað sleitulaust í flestum félagasamtökum á Flateyri meðan hún bjó hér. Fyrst minnist ég hennar í fylkingarbroddi félagskvenna í kvenfélaginu Brynju. Þá vantaði leikvöll fyrir krakkana í þorpinu. Gunnhildur gekk að því uppbyggingarstarfi með oddi og egg. Og leikvöllur varð til! Gunnhildur sá líka um rekstur hans árum saman. Gunnhildur er mér þó líklega eftirminnilegust í starfinu fyrir Leikfélag Flateyrar, en þar var hún að sjálfsögðu aðaldrifkrafturinn. Í þá daga var mikið fyrirtæki að ferðast með leikflokk milli byggða á Vestfjörðum að vetrarlagi, en oftast var ferðast með skipum og hljóp landhelgisgæslan þá oft undir bagga. Það var samt ótrúleg fyrirhöfn þessu samfara, en Gunnhildur skipulagði allt og stjórnaði öllu. Mér finnst eins og hún hafi verið best í essinu sínu þegar erfiðleikarnir virtust vera mestir og flóknastir. En allt gekk þetta upp með glæsibrag. Það sem Gunnhildur tók sér fyrir hendur var raunar allt milli himins og jarðar. Allt umhverfið var starfsvettvangur hennar. Hvar sem hún kom auga á verk sem þurfti að vinna gekk hún sjálf fram með sinni alkunnu elju og linnti ekki fyrr en verki var lokið. Aldrei held ég að hún hafi hugleitt eitt augnablik hvort hún uppskæri þakklæti fyrir störf sín. Þetta virtist vera henni eðlislægt. Svona var hún.

Fyrir nokkrum vikum hitti ég Gunnhildi vestur á Patreksfirði. Þar voru margir góðir vinir samankomnir og glatt á hjalla: Jón Gunnar átti afmæli. Gunnhildur var kát og glöð að vanda. Svo lauk lífi hennar skyndilega – þessu starfsama og skemmtilega lífi. Við Sigrún sendum Jóni Gunnari og börnum þeirra okkar innilegustu samúðarkveðjur um leið og við minnumst Gunnhildar með virðingu og þökk.

 

Einar Oddur Kristjánsson, Sólbakka, Flateyri.

Skráð af Menningar-Bakki.

DEILA