Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt að setja 1,5 milljón króna í Skúrina samfélagsmiðstöð, frumkvöðlasetur og fyrirtækjahótel á Flateyri. Mun bæjarsjóður auka hlutafé sitt í Hvetjanda hf, eignarhaldsfélagi um 1,5 m.kr. og það félag mun kaupa hlutafé í Skúrinni fyrir jafnháa upphæð.
Fer málið nú til bæjarstjórnar til staðfestingar.
Tildrög málsins eru þau að í júní barst erindi frá Runólfi Ágústssyni og Óttari Guðjónssyni f.h. Skúrinnar, óstofnaðs hlutafélags um samfélagsmiðstöð, frumkvöðlasetur og fyrirtækjahótel á Flateyri, ásamt drögum að rekstraráætlun, þar sem verkefnið var kynnt, og óskað eftir því að Ísafjarðarbær yrði hluthafi í fyrrgreindu félagi. Ísafjarðarbær leigir skrifstofuaðstöðu fyrir verkefnastjóra í málefnum Flateyrar í húsnæði félagsins.
Hlutafélagið var stofnað í júlí og söfnuðust hlutafjárloforð fyrir 7 milljónum króna.
Í stjórn eru Steinunn G. Einarsdóttir formaður, Áslaug Guðrúnardóttir og Teitur Björn Einarsson.