Samstarfshópur um friðlýsingu á svæði Dynjanda heitir nú samstarfshópur um þjóðgarð á Vestfjörðum samkvæmt nýjum pósti frá Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.
Þar er greint frá því að ráðuneytið sé að bíða eftir að tilnefningum frá viðbótaraðilum í samstarfshópinn. Þar er um að ræða fulltrúa frá forsætisráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti og Landgræðslusjóði. Tilnefningarnar ættu að liggja fyrir á
næstu dögum.
Á árinu hefur verið að störfum samstarfshópur um friðlýsingu á svæði Dynjanda. Í hópnum bæjarstjórarnir í Vesturbyggð og Ísafjarðarbæ, auk fulltrúa frá Umhverfisráðuneytinu og Umhverfisstofnun.
Verkefni samstarfshópsins hefur verið að undirbúa friðlýsingu á svæði Dynjanda og nágrennis.
Í byrjun júni lagði bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar til við bæjarstjórn að landsvæði í kringum Dynjanda yrði friðlýst sem þjóðgarður, og að sú afstaða yrði lögð fram á fundi samstarfshóps um friðlýsingar á Vestfjörðum innan marka Vesturbyggðar og Ísafjarðarbæjar.
Bæjarstjórnin frestaði því að greiða atkvæði um tillöguna og var málið tekið aftur fyrir á næsta fundi 18. júní. Þá lagði bæjarstjóri til aðra tillögu sem var samþykkt og var frestað að taka ákvörðun um friðlýsingu við Dynjanda þar til bæjarfulltrúar hafi fundað með sérfræðingi Umhverfisstofnunar vegna málsins, og að málinu verði frestað þar til bæjarstjórn hefur störf aftur að hausti.
Málið var tekið fyrir að nýju í bæjarráði á mánudaginn og lagt fram erindið frá fulltrúa ráðuneytisins. Athygli vekur að málið virðist hafa tekið breytingum. Hópurinn heitir nú samstarfshópur um þjóðgarð á Vestfjörðum og þrír opinberir aðilar til viðbótar koma að málinu, forsætis- og menntamálaráðuenytin og Landgræðslusjóður.
Vinna hópsins mun felast í því að vinna greinargerð um mögulegan þjóðgarð segir í erindinu. Stefnt er að því að greinargerð og friðlýsingarskilmálar liggi fyrir í janúar á næsta ári.
„Ef allt gengur samkvæmt áætlun þá væri hægt að sjá fyrir sér að friðlýsing geti orðið þann 17. júní 2021 á Hrafnseyri á fæðingardegi Jóns Sigurðssonar, en þá verða 210 ár frá fæðingu hans.“ segir í póstinum.
Málið var lagt fram til kynningar og eru ekki bókuð nein viðbrögð bæjarráðs.