Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt sérreglur um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2020/2021 og eru tillögurnar í samræmi við minnisblað bæjarstjóra.
Fer málið nú til bæjarstjórnar til afgreiðslu.
270 m.kr. verðmæti
Ekki liggur fyrir hver mikill kvóti kemur í hlut byggðarlaga innan Ísafjarðarbæjar á yfirstandandi fiskveiðiári, en samtals var úthlutað 1.075 þorskígildistonnum á síðasta fiskveiðiári 2019/2020. Mest kom í hlut Flateyrar 478 tonn, til Þingeyrar fóru 365 tonn, 207 til Hnífsdal, 200 tonn til Suðureyrar og 190 tonn til Ísafjarðar.
Verðmæti byggðakvótans 2019/2020 var um 270 milljónir króna sé miðað við það verð sem greitt er fyrir leigukvóta á síðasta fiskveiðiári og Fiskistofa gefur upplýsingar um.
Úthlutað til allra
Lagt er til að útgerðir verði að vera í eigu eða leigu einstaklinga eða lögaðila með heimilisfang í sveitarfélaginu 1. júlí 2020. Úthluta skal fyrst bátum með frístundaleyfi sbr. a-lið, 1 þorskígildistonni á bát, 40% af því sem eftir stendur skal skipt jafnt milli annarra skipa, þó ekki meira, í þorskígildum talið, en viðkomandi bátur landaði á fiskveiðiárinu 2019/2020. Afganginum skal skipt hlutfallslega, miðað við allan landaðan botnfiskafla í tegundum sem hafa þorskígildisstuðla, í þorskígildum talið, sem landað var innan sveitarfélagsins á tímabilinu 1. september 2019 til 31. ágúst 2020.
Löndunarskylda sveigjanleg
Fiskiskipum er skylt að landa þeim afla sem telja á til byggðakvóta til vinnslu innan
hlutaðeigandi byggðarlaga á tímabilinu frá 1. september 2020 til 31. ágúst 2021,
Ísafjarðarbær getur þó heimilað að aflanum sé landað innan sveitarfélags með áritun
á umsókn viðkomandi um byggðakvóta.