Ísafjarðarbær: lagst gegn sameiningu nefnda

Viðamiklar tillögur um breytingar á bæjarmálsamþykkt Ísafjarðarbæjar hafa verið lagðar fram og samþykkt að vísa þeim til síðari umræðu og afgreiðslu, sem verður í bæjarstjórn  á næstunni.

Meðal tillagna er sameining skipulags- og mannvirkjanefndar og  framkvæmdanefndar, og myndi ný nefnd heita skipulags- og umhverfisnefnd.

Þá leggur  sviðsstjóri umhverfis- og eignasviðs til að sameina skipulags- og mannvirkjanefnd og umhverfis- og framkvæmdanefnd.

Í greinargerð með tillögunum segir að málafjöldi á hverjum fundi  Umhverfis- og framkvæmdanefndar sé um 1-6 mál og að nefndin haldi fundi mánaðarlega.
Skipulags- og mannvirkjanefnd fundar að jafnaði tvisvar sinnum í mánuði og eru um 6-15 mál á dagskrá.

„Með sameinuðum nefndum yrði fundað um öll mál á umhverfis- og eignasviði tvisvar í mánuði, og umhverfismál myndu þá ekki þurfa að bíða lengri tíma til afgreiðslu. Þá eru mörg þessara mála sem samtvinnast, s.s. skipulag og umhverfi, enda kallast þessir málaflokkar mikið á. Þá myndi einn og sami starfsmaðurinn sinna sameinaðri nefnd, og flæði verða betra á málarekstri.
Skipulagsfulltrúi og byggingarfulltrúi yrðu starfsmenn nefndarinnar.“

Báðar nefndir andvígar breytingunni

Fram kemur í umsögnum nefndanna um tillögurnar að ekki sé tímabært að sameina nefndirnar.
Skipulags- og mannvirkjanefndin  kallar  eftir útfærslu á störfum nýrrar nefndar. Nefndin telur að miðað við umfang og fjölda mála á dagskrá funda  sé full þörf á tveimur nefndum. Nefndin sér ekki að málum hafi fækkað síðan Skipulags- og mannvirkanefnd var skipt upp í þær tvær nefndir, sem nú starfa, vegna anna fyrri nefndar.

DEILA