Ísafjörður: ófremdarástand í safnamálum

Frá aðstöðu Sæfara við Suðurtanga.

„Brýn nauðsyn er á geymslum fyrir Skjala-, Ljósmynda- og Listasafn auk þess sem Byggðasafn Vestfjarða stendur frammi fyrir miklum vanda. Geymsla Skjalasafns og Ljósmyndasafns í kjallara Safnahússins er löngu sprungin auk þess sem aðstæður þar eru slæmar sökum raka og myglu í húsnæðinu.“

2000 fermetra þörf

Þetta kemur fram í minnisblaði Jónu Símoníu Bjarnadóttur forstöðumanns Byggðsafns Vestfjarða, dags. 14. ágúst 2020 um húsnæðisskort safnanna á Ísafirði. Hún gerir ráð fyrir að  þörf Skjalasafns, Ljósmyndasafns og Listasafns sé samanlagt um 800-1000 fermetrar. Inni í þeirri tölu er jafnframt áætlað tölvurými vegna rafrænna skila. Þörf Byggðasafnsins er að mati Jónu Símoníu svipuð og er þá horft til þess að bátar safnsins komist undir þak.

Nefndar eru  tvær mögulegar lausnir:

„Lausn á þessu vanda gæti verið að byggja húsnæði í tengslum við byggingu nýrrar slökkvistöðvar á Skeiði. Svæðið er ekki á snjóflóðahættusvæði og lítil hætta á sjávar- eða vatnsflóðum. Önnur lausn fyrir Skjala-, Ljósmynda og Listasafnið er að kaupa húsnæði Mjólkurstöðvarinnar við Sindragötu 2 á Ísafirði en það húsnæði mun nú vera til sölu og er einnig á nokkuð öruggu svæði.“

Bryndís Ósk Jónsdóttir, bæjarritari leggur til við bæjarráð að heimilað verði að við hönnun og þarfagreiningu nýrrar Slökkvistöðvar á Ísafirði, verði geymslurými fyrir söfn sveitarfélagsins teiknuð með, með það í huga að nýtt hús verði reist sem hýsi bæði Slökkvilið og safnageymslur.

Þá leggur hún til að þar sem samþykkt hafi verið að Ísafjarðarbær kaupi húsnæði Sæfara á Suðurtanga 2 verði það notað sem geymsla og/eða safn fyrir báta, enda er húsnæðið á svæði við Neðstakaupstað, og mikil samlegðaráhrif við safnasvæðið.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar fól bæjarstjóra að vinna að hönnun og þarfagreiningu geymslurýmis fyrir söfn sveitarfélagsins, samtímis hönnun og þarfagreiningu nýrrar slökkviðstöðvar.

Atvinnu- og menningarmálanefnd hefur síðan tekið safnamálið fyrir. Nefndin tekur jákvætt í þá hugmynd að hluti húss að Suðurtanga 2 á Ísafirði yrði notað eða samnýtt með öðrum, til geymslu fyrir báta og sýningu þeirra, og vísar þeirri hugmynd til bæjarráðs til frekari útfærslu.

DEILA