Fram kemur hjá Votlendissjóði að fyrir lok september mánaðar verður hafist handa við endurheimt votlendis í þremur jörðum á Vestfjörðum. Það eru Kirkjuból í Korpudal í Önundarfirði þar sem undir eru 26 hektarar og jarðirnar Horn og Skógar í Mosdal við Arnarfjörð en þar eru rúmlega 30 hektarar til endurheimtar.
Í tilkynningu frá Votlendissjóði segir að samkvæmt upplýsingum frá Loftslagsráði Sameinuðu þjóðanna (IPCC) blási einn hektari af framræstu landi 19.5 tonnum af gróðurhúsalofttegundum út á ári. Mælingar Landgræðslunnar síðustu þrjú ár staðfesti það og meira til. Samkvæmt þessu myndi ávinningurinn af endurheimt votlendisins á þessum þremur jörðum verða 1.092 tonn af gróðurhúsaloftegundum á hverju ári.
Í erindi Votlendissjóðs til bæjarráðs Ísafjarðarbæjar er farið fram á leyfi eða samþykki fyrir endurheimt votlendis á jörðunum Skógum og Horni í Mosdal. Fram kemur að skurðir á því svæði sem áætlað er að endurheimta votlendi á séu um 6.1 km að heildarlengd.
Fyrirhugað er að fylla upp í hluta þessara skurða að fullu með gömlum uppgreftri sem að þeim liggur en í öðrum skurðum er áætlað að gera litlar „stíflur“ með reglulegu millibili. Verkið verður unnið með beltagröfu. Við þetta mun grunnvatnsborð á svæðinu hækka og hafa í för með sér endurheimt votlendis m.a. með tilheyrandi loftslagsávinningi.
Bæjarráðið vísaði erindinu til umhverfis- og framkvæmdanefndar og skipulags- og mannvirkjanefndar.
Í yfirliti um endurheimtarverkefni sem lokið er kemur fram að nokkur þeirra eru á Vestfjörðum.
Á Reykhólum voru endurheimtir um 3 ha af mýrum og nokkrar tjarnir með því að setja stíflur í skurði.
Á Fossá á Barðaströnd var mokað í alla skurði á jörðinni og útbúnar nokkrar tjarnir.
Á jörðunum Framnes og Kaldrananes II í Bjarnarfirði í Strandasýslu var rutt ofan í skurði og endurheimtir um 20 ha votlendi.
Loks var á jörðinni Kotland í Reykhólahreppi rutt ofan í marga skurði austan við byggðina á Reykhólum.