Samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar fyrir árið 2016 nam aflaverðmæti íslenskra skipa 133 milljörðum króna samanborið við ríflega 151 milljarð árið 2015. Aflaverðmæti úr sjó hefur því minnkað um rúma 18 milljarða eða sem nemur 12,1% samdrætti á milli ára. Aflaverðmæti í desember nam rúmum 6,5 milljörðum samanborið við 8,5 milljarða í desember 2015.
Aflaverðmæti botnfisks nam 92,7 milljörðum á árinu sem er samdráttur um 9,9% frá fyrra ári. Af botnfisktegundum var þorskur sem fyrr verðmætastur en aflaverðmæti þorsks á síðasta ári nam 58 milljörðum króna sem er 4,8% minna en árið 2015. Verðmæti flatfiskafla var 9 milljarðar á síðasta ári sem er 7,9% samdráttur frá fyrra ári. Verðmæti uppsjávarafla nam 27,8 milljörðum sem er 19,6% minna en árið 2015. Aflaverðmæti síldar jókst um 11% en verðmæti loðnu dróst verulega saman á milli ára, eða um 60,9%. Verðmæti skel- og krabbadýra var tæpir 3,5 milljarðar á síðasta ári sem er 12,9% samdráttur frá árinu 2015.
Verðmæti afla, sem seldur er í beinni sölu útgerða til vinnslu innanlands nam 70,2 milljörðum króna árið 2016 sem er samdráttur um 13,9% frá fyrra ári. Verðmæti afla sem keyptur er á markaði til vinnslu innanlands nam rúmum 19,5 milljörðum og dróst saman um 4,1%. Aflaverðmæti sjófrystingar dróst einnig saman á milli ára, nam rúmum 37 milljörðum samanborið við tæpa 44 milljarða árið 2015.
Smári