Vestfirðir: 4 styrkir til almenningssamgangna

Efla á almenningssamgöngur til Flateyrar. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, hefur staðfest tillögur valnefndar um verkefnastyrki sem veittir eru á grundvelli stefnumótandi byggðaáætlunar fyrir árin 2018-2024. Að þessu sinni var 32,5 milljónum króna úthlutað til ellefu verkefna á sviði almenningssamgangna um land allt fyrir árin 2020 og 2021 en fyrirheit hafa verið gefin um styrki að heildarupphæð 47,3 milljónum króna á árunum 2020-2023. Markmið með framlögunum er að styðja við áframhaldandi þróun almenningssamgangna um land allt.

Fjórir af ellefu styrkjum koma í hlut verkefna á Vestfjörðum samtals 27,4 m.kr. á þremur árum.  Þeir eru:

Efling þjónustu og atvinnusóknar á norðanverðum Vestfjörðum. Vestfjarðastofa ses. hlýtur styrk til að efla almenningssamgöngur til og frá Flateyri með það að markmiði að bæta þjónustu við íbúa á Flateyri, en horfa jafnframt til samlegðaráhrifa fyrir nágrannabyggðarlögin Suðureyri, Flateyri og Þingeyri. Verkefnið er styrkt um kr. 1.000.000 árið 2020 og kr. 3.200.000 á ári 2021-2023. Samtals kr. 10.600.000.

Sambíllinn. Vestfjarðastofa ses. hlýtur styrk til að greina möguleika þess að efla almenningssamgangnaakstur með því að nýta þjónustu sem þegar er í boði, s.s. skólaakstur og þjónustuakstur. Verkefnið er styrkt um kr. 3.000.000.

Pöntunarakstur. Vestfjarðastofa ses. hlýtur styrk til að koma upp akstri til og frá Reykhólahreppi og Drangsnesi og tengja samgönguneti almenningssamgangna. Verkefnið er styrkt um kr. 1.000.000 árið 2020 og kr. 2.700.000 á ári 2021-2023. Samtals kr. 9.100.000.

Pöntunarakstur. Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppur hafa í samstarfi við fyrirtæki í sveitarfélögunum byggt upp almenningssamgöngur á milli byggðarlaga og vilja auka sveigjanleika kerfisins. Vestfjarðarstofa ses. hlýtur styrk til að koma á pöntunarþjónustu með aðilum sem hafa til þess bær leyfi. Verkefnið er styrkt um kr. 200.000 árið 2020 og kr. 1.500.000 á ári, árin 2021-2023. Samtals kr. 4.700.000.

DEILA