Opið hús á Engi

Á Engi verður starfrækt gestavinnustofa listamanna

ArtsIceland eru alþjóðlegar gestavinnustofur listamanna við Aðalstræti á Ísafirði. Þar eru tvær vinnustofur sem listamenn hafa haft færi á að dvelja í og vinna að listsköpun sinni síðan árið 2014. Misjafnt er hversu lengi hver listamaður dvelur á staðnum en það getur verið allt frá tveimur vikum að þremur mánuðum. Kol og salt ehf sem stendur að baki reksturs ArtsIceland skrifaði nýverið undir leigusamning við Ísafjarðarbæ um afnot af Engi til tveggja ára og með því bætast 3 vinnustofur við í sex mánuði á ári frá vori fram á haust, en Engi er á snjóflóðahættusvæði og því ekki leyfilegt að dvelja þar yfir vetrarmánuðina.

Á laugardag býður ArtsIceland gestum á opið hús og listamannaspjall á Engi. Þá gefst listunnendum kostur á að skoða húsakynnin og heyra þrjár listkonur tala um verk sín. Það eru þær Anastasia Lobkovski kvikmyndagerðarkona frá Finnlandi sem nú dvelur í gestavinnustofu ArtsIceland og myndlistarkonurnar Ólöf Dómhildur Jóhannsdóttir og Nina Ivanova sem báðar eru búsettar á Ísafirði.

Stilla úr einu verka kvikmyndagerðarkonunnar Anastasia Lobkovski

Húsið opnar kl. 16 og dagskráin hefst kl. 16:30 með ávarpi Gísla Halldórs Halldórssonar bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar. Boðið verður upp á smáréttasnarl og óformlegt spjall eftir kynningarnar og eru gestir eru beðnir um að taka með sér það sem þeir vilja drekka með matnum. Allir eru velkomnir á meðan húsrúm leyfir.

Meira um viðburðinn og listakonurnar má finna hér.

annska@bb.is

DEILA