Ísafjörður: stækkun Eyrar undirbúin

Eyri og Heilbrigðisstofnun Vestfjarða. Mynd: Hvest.is

Framkvæmdasýsla ríkisins vinnur að undirbúningi stækkunar á hjúkrunarheimilinu Eyri um 10 hjúkrunarrými. Heilbrigðisráðuneytið mun greiða 85% af kostnaðinum og Ísafjarðrbær 15%. Segir í samningsdrögum að Heilbrigðisráðherra hafi ákveðið að stækka heimilið um 10 rými. Núverandi hjúkrunarheimili Eyri var tekið í notkun 2015 og Ísafjarðarbær byggði og leigir ríkinu samkvæmt samningi. Í því eru 30 rými en gert var ráð fyrir að hægt yrði að stækka það um 10 rými.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur fengið samningsdrög um framkvæmdina til yfirferðar en ráðuneytið hefur þegar samþykkt þau.

Bæjarráðið vill að ríkissjóður eignist Eyri og fer fram á að það kaupi húseignina eins og fram kemur í bókun þess:

„Bæjarráð fagnar áformum um fyrirhugaða stækkun Eyrar, en ítrekar ósk sína um að ríkissjóður kaupi fasteignina sem hýsir hjúkrunarheimilið. Ljóst má þykja að þegar ríkið ætlar sér að byggja við Eyri, sem er í eigu Ísafjarðarbæjar í dag, þá er einfaldast og hagkvæmast að ríkið eigi jafnframt Eyri, enda er fasteignin viðbygging við HVEST, sem er í eigu ríkissjóðs, og rekstur Eyrar á höndum ríkissjóðs.“

 

DEILA