Útgerðarfélagið Páll Helgi ÍS 142 ehf í Bolungavík hefur verið selt og þar með lýkur liðlega hálfrar aldar útgerðarsögu. Kaupandi er Jakob Valgeir ehf í Bolungavík.
Eignir fyrirtækisins eru um 170 þorskígilda kvóti, mestmegnis í þorski, eikarbáturinn Páll Helgi ÍS 142 smíðaður 1977 og fiskverkunarhús.
Samningar um kaupin voru gerðir í febrúar en afhending og lokafrágangur fer fram nú í vikunni.
Það var Guðmundur Rósmundsson sem hóf útgerðina og gerði m.a. út á rækju í Djúpinu auk þess að vera frumkvöðull að hörpudiskveiðum á 7. áratug síðustu aldar. Sonur hans Benedikt Guðmundsson segir að fyrst hafi hörpudiskurinn veiðst undan Sléttu í Ísafjarðardjúpinu 1967-8.
Stofnað var félag um útgerðina þegar núverandi bátur Páll Helgi ÍS 142 var keyptur 1978. Báturinn var smíðaður í Hafnarfirði ári áður. og er 29 brt. Benedikt segir að nafnið megi rekja til föður Guðmundar sem hét Rósmundur Helgi Pálsson og var sjómaður í Bolungavík.
Benedikt hefur verið skipstjóri á Páli Helga ÍS alla tíð og varð reyndar skipstjóri 21 árs gamall. Með honum hefur verið bróðir hans Páll Guðmundsson.
Benedikt segist vera ánægður með að útgerðin hafi ekki farið út úr bænum og nefnir sérstaklega að alla tíð hafi öllum afla verið landað í Bolungavík.