Hvað á að gera við Garðar BA?

Garðar BA 64. Mynd: Dagný Kristinsdóttir.

Menningar- og ferðamálaráð Vesturbyggðar hefur lagt til við bæjarstjórn að skipaður verði vinnuhópur til þess að vinna að hugmyndum um framtíðaráform Garðars BA, í samstarfi við landeigendur og fól menningar-og ferðamálafulltrúa að fara í þá vinnu.

Tildrög þessarar tillögu er Arnheiður Jónsdóttir og Magnús Jónsson, börn Jóns Magnússonar sem átti stálskipið  komu inn á fund ráðsins fyrir skömmu  til þess að fara yfir möguleg framtíðaráform vegna Garðars BA.

Garðar BA hefur verið einn af vinsælustu viðkomustöðum ferðmanna á sunnanverðum Vestfjörðum undanfarin ár, en skipinu var á sínum tíma siglt upp í fjöru í Skápadal í Patreksfirði. Skipið og umhverfi þess hafa orðið fyrir ágangi vegna fjölda ferðamanna. Garðar BA er í áfangastaðaáætlun Vestfjarða þar sem lagt er til að farið verði í uppbyggingu á svæðinu.

Garðar BA 64  er 179 lesta stálbátur sem smíðaður var hjá Askers Mek skipasmíðastöðinni í Noregi árið 1912 til hvalveiða og var þá með gufuvél. Þarafleiðandi var óvenju rúmgott og hátt til lofts í vélarrúminu er dieselvél var síðar sett í bátinn. Er bátnum var hleypt af stokkunum í Noregi var hann rúmlega 30 metra langur, yfir 6 metra breiður og risti tæplega 3,5 metra. Hann var tvímastraður og seglbúinn, en með gufuvél til að nota í lognviðri. Þá fékk hann nafnið Globe IV. Globe IV var gerður út á hvalveiðar í Suður-Íshafi en hann var sérstaklega styrktur til Íshafssiglinga. Til að mynda er járnið mun þykkara að framan eða 7 til 9 mm og með mun þéttriðnari böndum en tíðkaðist þá

Báturinn kom svo hingað til lands 20. janúar 1945. Næstu áratugina áttu nokkrir aðilar skipið. Loks var báturinn seldur 1974 Patreki hf á Patreksfirði og hélt enn nafninu, en var nú BA 64. Í hans umsjá fiskaði Garðar vel og var oft með aflahæstu bátum vertíðanna.

Loks var Garðar BA 64 dæmdur ónýtur, tekinn af skrá 1. desember 1981 og svo siglt á land og í sátur í Skápadal. Farvegur var grafinn inn í sandfjöruna á lágfjöru, síðan var honum siglt inn á háflóði og loks var fyllt að. Þar stendur hann enn gestum og gangandi til sýnis, lengi vel í góðu ástandi en undanfarið hefur hann látið verulega á sjá, að nokkru vegna skemmdarverka. Árið 2001 var hann málaður, lagfærður lítillega.  (Mbl. 31. maí 2003).

DEILA