Skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt fyrir sitt leyti umsókn West Seafood ehf. sem sækir um gerð lóðarleigusamnings undir fasteignirnar við Hafnarbakka 8, Flateyri.
Umsóknin er dagsett 4. ágúst síðastliðinn. West Seafood ehf var fiskvinnslufyrirtæki á Flateyri sem var úrskurðað gjaldþrota 12. september 2019.
Bragi Rúnar Axelsson var skipaður skiptastjóri þrotabúsins og hefur það verkefni að koma eignum búsins í verð og skipta andvirði þeirra milli kröfuhafa.
Á sínum sagði í frétt Bæjarins besta um gjaldþrotið :
„Þótt það séu ekki góðar fréttir að fyrirtæki verði gjaldþrota þá kom fram hjá viðmælanda Bæjarins besta að margir Flateyringar fögnuðu því að þessari sögu væri lokið og þeir vonuðust til þess að þeir fengju ekki viðlíka sendingu aftur. Samkvæmt því sem næst verður komist mun West Seafood ehf skulda fyrirtækjum og einstaklingum fyrir vestan a.m.k. 50 – 60 milljónir króna.“
Bragi Rúnar Axelsson segir að fyrirtækið KalkSalt ehf hafi keypt og nauðsynlegt hafi verið að ganga frá lóðarleigusamningi svo unnt væri að þinglýsa kaupunum.
Fréttin hefur verið uppfærð.