Með þessum skrifum vil undirrituð f.h. Þrúðheima ehf. benda á staðreyndir og koma að nokkrum athugasemdum vegna bæði greinar formanns bæjarráðs í BB í vikunni sem er að líða sem og vegna minnisblaðs lögðu fram af bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar á bæjarráðsfundi þann 7. september síðastliðinn.
Í minnisblaði bæjarstjóra kemur fram að í byrjun júní hafi verið farið yfir þær tvær tillögur sem bárust um líkamsrækt á Ísafirði. Eftir umræður í bæjarráði hafi verið ákveðið að kalla eftir frekari gögnum sem samræmdust þeirri stefnu sem tekin hafði verið, þ.e. að þar sem ætti að byggja upp á Torfnesi aðstöðu til líkamsræktar væri verið að horfa til skammtíma lausnar og beðið um tillögur miðaðar að því. Þann 8. júní barst tölvupóstur frá bæjarstjóra þar sem óskað er eftir tillögum í samræmi við þessa ákvörðun.
Þann 22. júní s.l. fór Þór Harðarson f.h. Þrúðheima ehf. á fund við bæjarráð og fór yfir tillögu Þrúðheima sem aðlöguð hafði verið að þeim hugmyndum sem bæjarráð hafði sett fram í framangreindum tölvupósti .
Þann 16. júlí tilkynnti sviðstjóri íþrótta og tómstundasviðs, Stefanía Ásmundsdóttir, Þór Harðarsyni, að eftir fund bæjarráðs 13. júlí s.l. hafi tillaga Þrúðheima ehf. að Sindragötu þótt of dýr kostur. Stefanía óskað eftir því að framlengja samning Þrúðheima ehf. við bæinn um mánuð þar sem nú væri stefnt að því að bjóða reksturinn út í því húsnæði sem hann er nú í, þ.e. að Hafnarstræti 20 á Ísafirði.
Þann 22. júlí barst svo tölvupóstur frá sviðstjóra þar sem óskað var eftir því að Þrúðheimar ehf. framlengdu samning um 2 mánuði þar sem það taki tíma að útbúa útboðsgögn.
Það skýtur því skökku við að lesa í minnisblaði frá bæjarstjóra að ákveðið hafi verið að framlengja samningin við Þrúðheima ehf. vegna þess að ekki hafi verið búið að ganga frá samningum og hvað þá að lesa að það hafi aftur verið skilað inn tveimur tillögum þar sem nefnd seinni tillaga Ísófit hefur samkvæmt fundargerðum bæjarráðs á heimasíðu Ísafjarðarbæjar aldrei komið þangað inn til umræðu.
Miðað við undangengin samskipti við sviðstjóra, að verið væri að undirbúa útboðsgögn sem ættu að liggja fyrir í lok september, kom tölvupóstur þann 13. ágúst þess efnis að leggja ætti tillögurnar fyrir á bæjarráðsfundi þann 17. ágúst okkur verulega á óvart.
Fyrir liggur að eitthvað mikið hefur farið úrskeiðis í afgreiðslu þessa máls. Upplýsingaflæði verið stórkostlega ábótavant og ekki er hægt að skilja að framangreindu annað en að okkur í Þrúðheimum ehf. hafi hreinlega verið gefnar rangar upplýsingar um stöðu mála.
Í minnisblaði bæjarstjóra kemur fram að samningur við Ísófit hafi fyrst verið lagður til undirritunar þann 24. ágúst. Það getur varla talist rétt þar sem umræddur samningur var fyrst lagður til samþykktar þann 17. ágúst á fyrrnefndum bæjarráðsfundi og svo aftur þann 24. ágúst og í hvorugt skiptið samþykktur.
Samkvæmt reglugerð um opinber innkaup nr. 120/2016 má ætla að sú upphæð sem lögð var til grundvallar hafi farið yfir þau viðmiðunarmörk sem sett eru til útboðs sem eru 15.500.000, verður að teljast heppilegt fyrir þá sem lögðu þann samning fram, að Ísófit breytti tillögu sinni svo hægt var að lækka upphæð samningsins undir útboðsmörk.
Formaður bæjarráðs, Daníel Jakobsson, fullyrðir að þetta hafi ekki verið unnið neitt öðruvís heldur en þegar Þrúðheimar tóku við rekstri líkamsræktarinnar á sínum tíma án útboðs og að nýr samingur verði ódýrari fyrir bæinn.
Staðreyndir málsins eru að Þrúðheimar eru einu aðilarnir sem lýstu yfir áhuga á verkefninu á sínum tíma og féll sá samningur sem gerður var ekki undir útboðsreglur þar sem hann var til skemmri tíma heldur en sá sem er til umræðu í dag. Sá samningur fól einnig í sér eins og áður hefur komið fram í grein Daníels í BB í vikunni, að Þrúðheimar greiddi leigu fyrir tækjabúnað sem aftur lækkar þá umtalsvert þá upphæð sem bærinn greiddi í leigu á húsnæðinu. Það er rétt að samningurinn við Þrúðheima var ógagnsær vegna kvaða um viðhald húsnæðis. Því miður hefur viðhaldi verið lítið sinnt á tímabilinu og við því oft á tíðum verið í rekstri í aðstöðu sem fáir ef nokkrir myndu sætta sig við.
Þann 20. ágúst sendu Þrúðheimar inn erindi til bæjarráðs þar sem þess var góðfúslega óskað að afhent væru gögn málsins, rétt er að benda á að sem aðilar máls eiga Þrúðheimar lagalegan rétt á öllu því sem lagt hefur verið til grundvallar að þeirri ákvörðun sem tekin var 17. ágúst um að ganga til samninga við Ísófit og skýrt er frá í auglýsingu á heimasíðu Ísafjarðarbæjar þann 18. ágúst
Því erindi hefur enn ekki verið svarað né hefur nokkur komið að máli við okkur sem að Þrúðheimum stöndum. Undirrituð hafa ekki fengið upplýsingar um hvenær eða hvernig Þrúðheimar eiga að skila af sér , þ.e. afhenda tækjakost og þar með loka dyrunum að okkar fyrirtæki.
Sú þögn, þöggun og almenna hunsun er ekkert annað en einelti og ofbeldi sem á ekki að viðgangst. Eins og flestir vita er það ekki þægileg tilfinning, hvað þá í okkar litla samfélagi. Framangreind vinnubröðg eru einfaldlega ekki boðleg.
Rétt er að taka fram að það er á engan hátt við Ísófit að sakast, og við eins og allir viljum að sjálfsögðu fá betri aðstöðu til líkamsræktar. Ábyrgðin er eingöngu hjá þeim sem ákvarðanirnar taka og sitja við stjórnvölin. Hvort það er vegna þekkingarleysis eða hreinlega slælegra vinnubragða þorum við ekki að fullyrða um, enda skiptir það í raun ekki máli.
Tilgangurinn með þessum skrifum er fyrst og fremst að varpa ljósi á staðreyndir málsins. Ekki til að koma af stað pólitískum skotgrafarhernaði með tilheyrandi leiðindum heldur einfaldlega ákall um vandaðari vinnubrögð, heilindi í starfi og gagnsærri stjórnsýslu.
Við gerum einfaldlega þá kröfu að kjörnir fulltrúar fari að lögum og reglum og taki upplýstar og vandaðar ákvarðanir í störfum sínum, ekki sýst þegar ákvarðanir snúast að fjármunum sveitarfélagsins. Við viljum á engan hátt að sveitarfélagið verði bótaskylt vegna slægra vinnubragða.
Virðingarfyllst
Baldvina Karen Gísladóttir