Elín Agla Briem hefur stefnt Árneshreppi fyrir dóm og krefst þess að hreppurinn greiði kröfu hennar um vangoldin laun vegna hafnarvörslu og vinnu við vigtun afla 4 ár aftur í tímann, samtals upp á rúmar 5,2 milljónir.
Elín Agla hefur unnið sem verktaki á þessu tímabili fyrir Fiskmarkað Suðurnesja og haft fyrir það meginþunga teknanna. Í vor var Elínu Öglu sagt upp því starfi og vann hún ekkert í sumar við þessi störf.
Greint er frá kröfunum í fundargerð sveitarstjórnar í sumar og var þeim hafað og lögmanni sveitarfélagsins falið að fara með það.
Samkvæmt heimildum Bæjarins besta á sveitarfélagið öll hús, lyftara, krana og rekur öll mannvirki og tæki og hefur Elín Agla haft afnot af þeim sér að kostnaðarlausu.
Aldrei hefur verið til starf hafnarvarðar eða vigtarmanns í Norðurfirði, en verktakar hafa sent lítilsháttar reikninga vegna vigtunar ár hvert, sem Elín hefur og líka gert.
Gerð er krafa um laun sem hafnarvörður í fullu starfi og fjárkrafan byggð á því samkvæmt heimildum vefsins.
Elín Agla hefur búið í Árneshreppi síðan 2014 en flutti suður í sumar.
Málið verður dómtekið næstu daga.