Vart hafa farið framhjá lesendum fréttablaðsins okkar „BB“ deilur í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar vegna uppsagna tveggja lykilstarfsmanna. Að sumu leyti eru þær keimlíkar deilum um hastarleg starfslok bæjarstjórans síðastliðinn vetur sem vöktu landsathygli eingöngu með neikvæðum formerkjum. Undirritaður hefur ekkert horfið frá þeirri skoðun sinni að þar hafi skort mikið á vilja til sátta og að jafna ágreining. Því skal hér haldið til haga að líklega var það í fyrsta skipti sem bæjarstjóri sveitarfélagsins var ráðinn með faglegum hætti þ.e auglýst eftir umsóknum sem voru síðan metnar af fagaðilum og komist að niðurstöðu um hæfasta umsækjandann. Miðað við umsagnir sem ég hef fengið frá starfsmönnum Ísafjarðarbæjar um samstarfið við Guðmund Gunnarsson þá hefur bæjarstjórn ekki tekist að sannfæra mig eða, að ég tel, þorra bæjarbúa að það hafi ekki verið betri kostur að hann starfaði áfram fyrir sveitarfélagið í stað þeirrar niðurstöðu að hann hætti með tilheyrandi aukakostnaði fyrir íbúa Ísafjarðarbæjar.
Uppsagnirnar
Víkjum þá að uppsögnum starfsmannanna tveggja. Ef marka má það sem fram kemur í frétt BB þá er haldinn fundur með Haraldi Líndal þann 8. maí þar sem skýrsla hans er kynnt og kemur þar fram að bæjarfulltrúar hafi uverið sammála um að ekki kæmi til uppsagna. Einmitt þess vegna hljóta eftirmálin að vekja furðu. Forstöðumanni eignasjóðs og umhverfisfulltrúa er sagt upp fyrirvaralaust af bæjarstjóra og, eins og fram kemur í sömu frétt, án þess að þær uppsagnir sé kynntar í bæjarstjórn, rétt eins og þess þurfi ekki við. Haft er eftir bæjarstjóra að annar starfsmaðurinn hafi óskað eftir starfslokum. Undirritaður hefur ekki aðrar heimildir fyrir þessari meintu fullyrðingu bæjarstjóra en ég ætla hins vegar, eftir ítarleg samtöl við báða þessa fyrrverandi starfsmenn, að vísa því á bug að annar þeirra hafi óskað eftir starfslokum því það er ekki sannleikanum samkvæmt. Hafi slíku verið haldið fram er það mjög alvarlegt að mínu mati. Báðir þessir einstaklingar eru með uppsagnarbréf í höndum þar sem þeim er tilkynnt að störf þeirra verði lögð niður.
Bókanir bæjarfulltrúa
Ítarlegar bókanir um uppsagnirnar birtast síðan frá báðum fylkingum í bæjarstjórn. Ætla ég að staldra við þá hluta þeirra sem mér þykja eftirtektarverðastir. Um lagalega hlið málanna ætla ég ekki að dæma. Minnihlutinn telur í sinni bókun að bæjarstjóri hafi farið fram úr sínum valdheimildum og vísar þar í sveitastjórnarlög nr. 138/2011. Ég fletti upp í sveitastjórnarlögum og fann eftirfarandi í 1. kafla, annarri grein: „Engu málefni sem varðar sérstaklega hagsmuni sveitarfélags skal ráðið til lykta án umfjöllunar sveitastjórnarinnar.“ Var þessu máli ekki einmitt ráðið til lykta án umfjöllunar sveitastjórnarinnar? Varðar það ekki hagsmuni þess að leggja niður störf og segja lykilstarfsmönnum upp án þess að þeim sé gefið neitt af sök??
Í bókun meirihlutans er því haldið fram að sameina svið og leggja störf niður sé ekki stefnumarkandi, verkefnin verði unnin áfram með hagkvæmari hætti. Síðan kemur eftirfarandi orðrétt: „Hafa ber í huga að talið er að sparnaður af þessari aðgerð sé hátt í á þriðja tug miljóna árlega þegar að þær eru gengnar í gegn. Þess vegna er þessi aðgerð skynsamleg. Hvaða skilaboð er verið að senda fyrrverandi starfsmönnum með þessum orðum? Fátt annað er hægt að lesa en að það sé 100% sparnaður af að leggja störf þeirra niður, þ.e. að þau hafi verið með öllu óþörf. Tölurnar sjálfar get ég ekki lagt mat á en tel þó vera vel í lagt með sparnaðinn og að þeir sem undir bókunina rita eigi eftir að sýna fram á að hún standist skoðun. Við þetta má bæta: Var bæjarfulltrúum sem virtust ekki óska eftir áframhaldandi störfum fyrrverandi bæjarstjóra umhugað um sparnað þegar tveir bæjarstjórar voru á launum mánuðum saman? Niðurlag bókunar meirihlutans er orðrétt: „ Engu að síður er að sjálfsögðu alltaf eftirsjá í starfsfólki. Sérstaklega þegar að það hefur unnið lengi hjá bænum. Það er mikilvægt að komið sé til móts við það eins vel og hægt er þannig að allir geti við unað. Ekki fæst annað séð en að þess hafi verið gætt í umræddu máli.“
Þessi orð eru ekki síður eftirtektarverð. Bendir það til þess að „allir geti vel við unað“ að annar þessara einstaklinga hefur leitað til lögfræðings, sem telur að brotin hafi verið lög á skjólstæðingi sínum? Það að komið hafi verið til móts við starfsmennina „eins vel og hægt er“ mætti óneitanlega skýra betur. Voru skilmálar uppsagna þeirra einhverjir aðrir og betri en lög og kjarasamningar krefjast? Varla geta bæjaryfirvöld talið sér það til tekna að hlíta lögum.
Var hagsmuna sveitarfélagsins gætt með þessum uppsögnum?
Í fyrsta lagi á eftir að koma í ljós hvort staðhæfingin um sparnað upp á hátt á þriðja tug miljóna á við rök að styðjast. Öðrum þræði er ekki erfitt að sjá að hún felur í sér frámunalega lítilsvirðingu á störfum þessara einstaklinga og eru þeim bæjarfulltrúum sem undirrita bókunina til lítils sóma. Síðan á eftir að koma í ljós hvort skoðun lögmannsins að brotin hafi verið stjórnsýslulög á skjólstæðingi hans verði staðfest fyrir dómi. Hætt er við að eitthvað lækki þá í sparnaðarpyngjunni. Annar þessara starfsmanna hefur eytt heilli starfsævi hjá Ísafjarðarkaupstað og síðar Ísafjarðarbæ, eða 45 árum. Hann hverfur fyrirvaralaust úr þjónustu bæjarins og að eigin sögn ekki að eigin ósk. Sú þekking sem hann býr yfir á ýmsum mikilvægum þáttum í starfsemi bæjarins hverfur því með honum og þeir sem eftir sitja verða að grufla sig áfram með mál sem þeir þekkja minna til. Skyldi það leiða til sparnaðar? Um starf umhverfisfulltrúa er það að segja að því var komið á fót af bæjarstjórn árið 2008 undir forystu Halldórs Halldórssonar. Var þá ákveðið að ráða til þess starfs einstakling sem bjó að sérmenntun á því sviði frá virtum háskóla í Sviss. Umhverfismálum er eðli máls samkvæmt ekki ætlað að vera tekjuaflandi en þeim er ætlað að bæta andrúmsloft, umhverfi og lífsgæði manna og dýra. Skilningur á mikilvægi þeirra hefur farið ört vaxandi sem hvað best endurspeglast í sáttmála sem nánast allar þjóðir heims gerðu með sér í París. Hluti bæjarfulltrúa í Ísafjarðarbæ virðist þó vera á öðru máli því þeir eru greinilega hreyknir af að leggja niður eitt starf og ætla síðan einhverjum óskilgreindum að vinna að þeim málum í hjáverkum. Það er nánast hægt að ímynda sér að þeir hafi sótt sín viðhorf til fertugasta og fimmta forseta Bandaríkjanna, Donalds Trump, sem hefur ásamt mörgu slæmu stundað þá iðju að reyna, sem betur fer með litlum árangri, að grafa undan samstöðu þjóða í loftslagsmálum.
Mannlegi þátturinn léttvægur fundinn
Ég tel mig hafa sett fram rök fyrir þeirri skoðun að þessar uppsagnir þjóni ekki hagsmunum Ísafjarðarbæjar. Þar fyrir utan vega þær að persónum þeirra einstaklinga sem í hlut eiga. Annar þessara einstaklinga gerði ekki ráð fyrir öðru en að ljúka sínum starfsferli hjá Ísafjarðarbæ. Hinn hefur starfað hjá sveitarfélagi okkar í tólf ár í sérhæfðu verkefni. Ekki þarf að leiða að því getum að á hans sviði er ekki um aðra vinnuveitendur að ræða í sveitarfélaginu en Ísafjarðarbæ. Það er því dagljóst að honum eru í raun ekki gefnir aðrir kostir en að hverfa á braut og bæta enn við þann fólksflótta sem við höfum heyrt nýlegar tölur um. Bæði hann og fyrrverandi bæjarstjóri sýndu í verki að þeir trúðu á framtíð sína á Ísafirði með því að fjárfesta í húseignum hér. Það virðist því ríkja um þessar mundir annar þankagangur hjá stjórnendum Ísafjarðarbæjar en ríkisvaldinu sem er að verja miljörðum til þess að hvetja fyrirtæki og stofnanir til að halda starfsfólki sínu þegar eitt mesta atvinnuleysistímabil sögunnar blasir við okkur. Ég mun standa hvar sem er við þá skoðun mína að þessar uppsagnir séu ekki undirbyggðar með neinum haldbærum rökum og því ekki til þess fallnar að auka traust á þeim sem að þeim standa.
Ólafur Bjarni Halldórsson