Tökum lyf og vímuefni úr umferð(inni)

Samgöngustofa hefur hrint af stað átakinu „Tökum lyf og vímuefni úr umferð(inni)” en því er ætlað að vekja fólk til vitundar um ábyrgð okkar allra og þá miklu hættu sem stafar af akstri undir áhrifum lyfja og vímuefna.

Það er staðreynd að fleiri ökumenn eru teknir fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna heldur en fyrir ölvunarakstur.

Það sem meira er, þetta hefur verið svona síðan árið 2013 og það sem af er þessu ári hafa 83% fleiri verið teknir fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna heldur en áfengis skv. tölum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Undirbúningur þessarar herferðar hefur staðið yfir í um eitt og hálft ár en árið 2018 var versta ár sem við höfum séð hvað varðar lyfja- og vímuefnaakstur.

Tölurnar höfðu hækkað ár frá ári en þegar ljóst var í hvað stefndi árið 2018 varð talsverð þjóðfélagsumræða um þetta „nýja“ vandamál.

Akstur undir áhrifum lyfja og vímuefna er vandamál sem er hulið samfélaginu að miklu leyti og er það von okkar að herferðin veki mikla umræðu og hvetji fólk til að aka ekki undir áhrifum lyfja og vímuefna og að fólk tali við þá aðstandendur sína sem þurfa að taka skilaboðin til sín.

DEILA