Eldisafurðir: samdráttur í ágúst

Útflutningsverðmæti landbúnaðarafurða nam 1,9 milljarði króna í ágúst samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar um vöruskipti sem birtar voru í morgun. Það er samdráttur upp á tæp 4% í krónum talið. Að teknu tilliti til gengisbreytinga er samdrátturinn þó ívið meiri, eða tæp 17%, þar sem gengi krónunnar var rúmlega 13% veikara nú í ágúst en sama mánuði í fyrra.

þetta kemur fram í fréttabréfi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.

Eldisafurðir eru í reynd langstærsti hluti landbúnaðarafurða í útflutningi og hafa verið um 86% af útflutningsverðmæti landbúnaðarafurða á fyrstu 7 mánuðum þessa árs.

Samdrátturinn , sem virðist hafa orðið í ágúst,er rakinn  til lækkunar á verði eldisafurða erlendis, sem er ein af afleiðingum COVID-19 á starfsemi fiskeldisfyrirtækja. Afurðaverð var að jafnaði um 6% lægra í erlendri mynt á fyrstu 7 mánuðum ársins miðað við sama tímabili fyrra.

Eins hefur ástandið hægt á framleiðslu, en engu að síður mælist 7% aukning þar á milli ára á fyrstu 7 mánuðum ársins. Hefur útflutningsverðmæti eldisafurða á tímabilinu því nánast verið á pari það sem af er ári miðað við sama tímabil í fyrra, mælt í erlendri mynt.

Niðurstaðan er að magnið sem flutt var út jókst um 7% en verðið lækkaði um 6% að jafnaði.

DEILA