SalMar í Noregi hefur birt upplýsingar um rekstur og afkomu á fyrri hluta ársins, en fyrirtækið er skráð í norsku kauphöllinni og ber því að birta reglulega greinargóðar upplýsingar til þess að tryggja að viðskipti með hlutabréf séu byggð á áreiðanlegum upplýsingum. SalMar er eigandi að 59,36% hlutafjár í Arnarlax hf.
Þrátt fyrir Covid19 faraldurinn sem hefur haft áhrif á verð á eldislaxi til lækkunar var afkoman fyrri hluta ársins mjög góð.
Heildartekjur samstæðurnnar voru um 81 milljarður króna og hagnaður fyrir fjármagnskostnað og skatta var um 40% af tekjunum eða rúmlega 32 milljarðar króna. Slátrað var 81 þúsund tonnum af eldislaxi og gert er ráð fyrir að framleiðsla ársins verði um 164 þúsund tonn.
Eignir SalMar eru metnar á 304 milljarða króna og eigið fé þar af er nærri 60% sem gera um 240 milljarða íslesnkra króna.
Framtíðarhorfur eru metnar sem góðar þrátt fyrir að covid19 valdi ákveðnum óstöðugleika á sölumörkuðum. Meðal þess sem unnið er að er laxeldi í stórum úthafskvíum. Þróunarleyfi voru veitt í febrúar 2019 og sett verður út á árinu önnur kynslóð laxa í úthafskvíar. Stefnt er að ákvörðun á næsta ári um hvort farið verði af stað í fullri alvöru í framleiðslu í slíkum kvíum.
Arnarlax : lítilsháttar tap
Eftir að hafa skilað hagnað á síðasta ári varð tap af rekstri á fyrri hluta ársins 2020. Tekjur Arnarlax voru um 6 milljarðar króna og tap fyrir fjármagnskostnað og skatta var um 140 milljónir króna eða 2,4%.
Skýringarnar eru mikil afföll í kvíum sem urðu í vetur og varð auk þess að grípa til þess ráðs að slátra laxi úr þeim kvíum fyrr en til stóð. Fengust því minni tekjur fyrir en ætlað var. Gert er ráð fyrir að afkoman á seinni hluta ársins verði betri, bæði að verðin verði hærri og kostnaður minni. Áætlað er að framleiðsla Arnarlax verði 12 þúsund tonn á árinu og segir að framtíðarhorfur séu góðar.