Vestfjarðastofa vill þjóðskóga á Vestfjörðum

Vestfjarðastofa hefur sent erindi til Vesturbyggðar og reifað þar hugmynd um þjóðskóga á Vestfjörðum. Er þar lagt til að  skoða uppbyggingu þjóðskóga á Vestfjörðum í
tengslum við aðra landnýtingu. Vísað er til sóknaráætlunar  Vestfjarða 2020-2024 þar sem þjóðskógur á Vestfjörðum er ein af aðgerðunum sem til skoðunar eru á tímabilinu. Styðst hugmyndin við markmið ríkisstjórnarinnar um eflingu sjálfbærni skóga.

Fram kemur í bréfi Vestfjarðastofu að markmiðið er  að byggja upp tvo þjóðskóga á Vestfjörðum í Vestur-Botni og í Brekkudal  í Dýrafirði. Með því  væri hægt að gera þessa tvo staði að áningastöðum fyrir göngufólk og gönguleiðirnar í Dýrafirði, Arnarfirði, Tálknafirði, Patreksfirði og Barðaströnd fengju heildstæða mynd.

Þá segir:

„En einn af lykilþáttum þess að stofna þjóðskóg er að hann sé í nágrenni við atvinnusvæði. Í Vestur-Botni gæti þetta verið vinnustaður fyrir atvinnusvæðið á Barðaströnd, Bíldudal og Patreksfirði.
Á báðum stöðum þarf að byggja upp göngustígakerfi og búa til athvarf fyrir göngufólk annað hvort með tjaldstæði eða fjallakofa.
Báðir staðirnir eru flottur upphafspunktur að stórkostlegri gönguferð út á nesið milli
Dýrafjarðar og Arnarfjarðar og í hinu tilfellinu frá Patreksfirði yfir í Arnarfjörð og út á nesið
milli Patreksfjarðar og Breiðafjarðar.“

Enginn þjóðskógur á Vestfjörðum

Verkefnið yrði á höndum Skógræktarinnar sem  á eða hefur í sinni ríflega fimmtíu lendur um allt land að undanskildum Vestfjörðum. Skógarnir sem þar vaxa eru kallaðir þjóðskógar. Þeir eru öllum opnir allan ársins hring.

Þjóðskógur – yrði fjármagnaður af ríki. Kolefnissporið sem sparaðist myndi hlotnast
sveitarfélaginu í úttektum „Earth Check“.

Í erindinu til Vesturbyggðar segir Vestfjarðastofa um þjóðskóg í Vestur Botni:

„Þjóðskógur í Vestur-Botni og á svæðinu við golfvöllinn á Patreksfirði. Meta þyrfti hvort um
væri að ræða nytjaskjóg til skógarhöggs eða nytjaskógur til beitar. Þar er fyrirhugað
sumarbústaðaland og þar myndi skapast enn betra útivistarsvæði með göngustígum,
bílastæðum og bættum aðbúnaði. Þjóðskógur myndi fjölga störfum, skapa störf á nýju sviði, bæta ímynd varðandi umhverfismál, efla innviðauppbyggingu í Vestur-Botni til framtíðar.“

Bæjarráð Vesturbyggðar þakkaði fyrir erindið og fól bæjarstjóra að óska eftir samtali við Vestfjarðastofu um uppbyggingu þjóðskóga í Vesturbyggð.

 

DEILA