Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, hvatti sveitarfélög til að efla enn frekar félagsstarf fullorðinna sumarið 2020 með það að markmiði að rjúfa félagslega einangrun sem orðið hefur vegna Covid-19 faraldursins.
Eldri borgarar og öryrkjar þurftu að þola skerta samveru og félagslega einangrun á vormánuðum, meðal annars vegna sjálfsskipaðrar sóttkvíar. Af þeim sökum var sérstaklega mikilvægt að leggja aukna áherslu á frístundaiðkun, geðrækt, hreyfingu og forvarnir með það að markmiði að auka lífsgæði og heilbrigði, fyrirbyggja og draga úr félagslegri einangrun.
Ákveðið var að styðja við þau sveitarfélög sem, vegna Covid-19, ætluðu að auka við starfsemi og þjónustu í félagsstarfi fullorðinna sumarið 2020 umfram hefðbundið sumarstarf.
Á þessum grundvelli gafst sveitarfélögum kostur á að sækja um fjárframlag vegna sérstakra viðbótarverkefna í félagsstarfi fullorðinna.
Alls var samþykkt að veita allt að 75 milljónum króna til þessa verkefnis á landsvísu.
Við útdeilingu fjármagns var fjöldi íbúa 67 ára og eldri í hverju sveitarfélagi hafður til viðmiðunar og bárust umsóknir frá 39 sveitarfélögum en í þeim sveitarfélögum búa um 93% þeirra sem eru 67 ára og eldri á landinu.
Verkefnin sem sveitarfélögin sóttu um styrk fyrir voru fjölbreytt enda stærð sveitarfélaganna mismunandi. Minnstu sveitarfélögin nýttu styrkinn meðal annars til að halda kaffisamsæti með uppákomu, gönguferðir með leiðsögn, harmonikkuball, golfmót og grill. Stærri sveitarfélögin buðu upp á verkefni á borð við ferðir á söfn, styttri gönguferðir, menningartengda viðburði, jóga, dans og aðra hreyfiþjálfun og tæknilæsisnámskeið þar sem boði var upp á hóptíma, einstaklingþjálfun og fjarþjálfun.
Þeim sveitarfélögum sem fengu úthlutað fjármagni til sumarverkefna er ætlað að skila stuttri skýrslu um framvindu verkefna og árangur til félagsmálaráðuneytisins fyrir 1. október 2020.
Ekki liggja fyrir upplýsingar um hvaða sveitarfélög á Vestfjörðum fengu styrk.