Það færist sífellt í vöxt að fólk tínir sveppi sér til matar. Best er að fara í þurru veðri nokkrum dögum eftir regn, vera vel búin til útivistar, með körfu undir sveppina og lítinn beittan hníf.
Safna skal þéttum, ungum og heilbrigðum sveppum en láta of gamla og of unga sveppi standa áfram á sínum stað. Óþekkta sveppi, sem gætu verið eitraðir, skal ekki setja beint í matsveppakörfuna heldur fyrst í bréfpoka eða box.
Rétt er að benda áhugafólki um sveppi á að komin er út ný útgáfa af Sveppahandbókinni eftir Bjarna Diðrik Sigurðsson, skógvistfræðing, en hann er mikill áhugamaður um sveppi og nýtingu þeirra, og býr yfir hafsjó af fróðleik sem hann miðlar á afar aðgengilegan hátt.
Í bókinni eru hagnýtar upplýsingar um sveppi og sveppatínslu almennt; um útbreiðslu og greiningu tegunda, hvenær best er að tína sveppi, um næringargildi þeirra og hvernig þeir skulu meðhöndlaðir þegar heim er komið.