Margmiðlunarsýningin „Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur” verður opnuð í Edinborgarhúsinu sunnudaginn 9. ágúst klukkan 16:00 – 19:00. Með einstökum ljósmyndum eftir suma fremstu náttúruljósmyndara landsins, kvikmyndum sem voru búnar til sérstaklega fyrir sýninguna og áhugaverðum upplýsingum, bæði í prentuðu máli og á gagnvirkum tölvuskjá, gefst Vestfirðingum og gestum sem sækja svæðið heim, tækifæri til að kynna sér í máli og myndum þær náttúruperlur sem þegar hafa verið eyðilagðar eða eru í hættu vegna áforma um virkjanir.
Þetta er samsýning Landverndar, Ólafs Sveinssonar og Náttúruverndarsamtaka Vestfjarða í samstarfi við Edinborgarhúsið. Hér gefst Vestfirðingum tækifæri til að glöggva sig á því hvað er í húfi og hvers vegna náttúruverndarsamtök hafa áhyggjur og beita sér gegn fjölmörgum áformum um virkjanir. Náttúra landsins er einstök, falleg, grimm og gjöful eins eins og Vestfirðingar þekkja manna best og ber að líta á sem heild, þar sem dýraríkið er samofið þeirri stóru mynd sem landið og hafið kringum það mynda.
Sýningin varð upprunalega til í tilefni af 50 ára afmæli Landverndar haustið 2019. Hún er unnin í samstarfi við Ólaf Sveinsson kvikmyndagerðarmann, sem jafnframt er sýningarstjóri, og stóran hóp ljósmyndara.
Auk ljósmynda verður á sýningunni snertiskjár með Náttúrukorti Framtíðarlandsins sem veitir yfirsýn yfir þau svæði á Íslandi þar sem virkjanir hafa verið byggðar, fyrirhugað er að nýta til orkuframleiðslu eða nýta á annan hátt, ásamt ítarlegum upplýsingum. Þrjár stuttar kvikmyndir eru sýndar á sýningunni. Tvær þeirra eru eftir Ólaf Sveinsson, gerðar sérstaklega fyrir sýninguna og eru tengdar baráttunni gegn Kárahnjúkavirkjun; önnur er um Ómar Ragnarsson. Þriðja myndin fjallar um Hvalárvirkjun sem nú hefur verið slegið á frest.
Á sýningunni verður fjöldi mynda af dýrum sem lifa villt í náttúru Íslands. Myndirnar eru heillandi og höfða jafnt til barna og fullorðinna. Vonandi verða þær til að opna augu sem flestra fyrir þeirri fegurð sem býr í fánu landsins og horfa á náttúruna, jafnt lifandi sem dauða, sem eina heild.
Meira en nóg af rafmagni á Íslandi
Framleiðsla rafmagns á Íslandi er fimmfalt meiri en þarf til að mæta almennri eftirspurn og framleiðslugeta er umfram eftirspurn. Því þarf ekki að auka rafmagnsframleiðslu til að bæta raforkuöryggi. Með því að bæta dreifikerfið má hins vegar draga úr rafmagnstruflunum. Þrátt fyrir þessa stöðu eru sífellt veitt rannsóknarleyfi fyrir virkjanir, stórar sem smáar. Þá virðist sem þær stofnanir sem eiga að fylgja eftir lögum um vernd náttúru og víðerna vanti úrræði til að koma í veg fyrir frekari eyðileggingu á náttúru landsins.
Misvísandi skilaboð stjórnvalda
Í umræðunni um þessi mikilvægu mál eru stjórnvöld eins og þríhöfða þurs; einn segist leggja áherslu á náttúruvernd, annar vill efla ferðaþjónustu sem byggir tilveru sína á náttúruarfi þjóðarinnar en sá þriðji veitir orkufrekum, mengandi fyrirtækjum rausnarlega fyrirgreiðslu.
Átökin um nýtingu auðlinda Íslands hafa staðið í áratugi og virðast engan enda ætla að taka. Mikil verðmæti hafa þegar glatast vegna virkjana og enn meiri verðmæti munu glatast ef fram heldur sem horfir. Verðmætur náttúruarfur komandi kynslóða er í hættu.
Skoðanir um náttúrvernd og virkjanir eru margþættar og ýmsir ólíkir hagsmunir togast á. Samtökin sem að þessari sýningu vilja stuðla að upplýstri og málefnalegri umræðu með áherslu á verndarsjónarmið og er sýningin liður í þeirri viðleitni.
Umhverfisráðuneytið, Ferðafélag Íslands, Umhverfissjóður Pálma Jónssonar og Útivist styrktu sýninguna. Frá Ísafirði fer sýningin til Egilsstaða og verður sett þar upp í október í samstarfi við Náttúruverndarsamtök Austfjarða. Aðrir landshlutar koma síðar.
Sýningin verður formlega opnuð sunnudaginn 9 ágúst kl. 16:00 – 19:00. Hún verður opin daglega og lýkur 6. september. Virka daga er opið frá kl. 12:00 – 23:00 og um helgar frá 17:00 – 23:00. Aðgangur er ókeypis og allir hjartanlega velkomnir.