Olíuverð á landsbyggðinni

Á vorþingi sem frestað var í lok júní voru samþykkt ríflega 130 lagafrumvörp.  Meðal þeirra voru lög um breytingar á lögum um svæðisbundna flutningsjöfnun.  Þessar breytingar eru raunar umtalsverðar, skipta ekki sköpum fyrir þjóðarhag en hafa þýðingu fyrir íbúa í dreifðum byggðum á Íslandi.

Annars vegar voru lög um jöfnun á flutningskostnaði olíuvara frá 1994 felld úr gildi. Þar með  er ekki lengur lagt á sérstakt flutningsjöfnunargjald á allar olíuvörur til nota innanlands.

Hins vegar er gerð breyting á lögum um svæðisbundna flutningsjöfnun frá 2011 og veitt lagastoð fyrir því fyrirkomulagi að Byggðastofnun annist úthlutun beinna styrkja vegna flutningskostnaðar olíuvara.

Tímabær lagabreyting

Með þessum breytingum er verið að skipa málum með svipuðum hætti og varðandi fyrrgreind lög um svæðisbundna flutningsjöfnun. Markmið þeirra laga er að styðja við framleiðsluiðnað og atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni með því að jafna flutningskostnað framleiðenda sem staðsettir eru fjarri innanlandsmarkaði eða útflutningshöfn og búa við skerta samkeppnisstöðu vegna mikils flutningskostnaðar.  Lögunum var svo breytt árið 2018 og komið þannig og með sama hætti til móts við einstaklinga eða lögaðila sem framleiða og rækta ávexti, blóm eða grænmeti og fullvinna í söluhæfar umbúðir.

Viðleitni til jöfnunar

Eflaust kann einhverjum að finnast það tímaskekkja að viðhalda flutningsjöfnun á jarðefnaeldsneyti sem við erum markvisst að hverfa frá.  Hafa verður þó í huga að framboð á orkugjöfum til samgangna á byggðarlega viðkvæmum stöðum er misjafnt og því verður ekki enn komið við að nýta stór og þung, vélknúin tæki með nýjum orkugjöfum, t.d. í landbúnaði, í vöruflutningum og smábátaútgerð sem er snar þáttur á ýmsum svæðum á landsbyggðinni. Þeir tímar munu koma að þarna verði breytingar á en á meðan er eðlilegt að leitað sé viðleitni til jafnræðis. Það er mikilvægt að lagabreytingin hafi ekki letjandi áhrif, að ekki verði gefinn neinn afsláttur af markmiðum Íslendinga um orkuskipti í samgöngum en á þessu sviði er þróunin ör og spennandi lausnir handan við hornið.

Ógegnsæjar álögur

Með lagabreytingunni 2018 fóru tekjur af flutningsjöfnunargjaldi sem neytendur greiða ekki lengur í sérstakan „flutningsjöfnunarsjóð“ heldur beint í ríkissjóð. Jafnframt bættist við ákvæði um að ráðherra skuli ákveða fjárveitinguna í flutningsjöfnunarsjóð olíuvara sem skuli  vera sú sama og tekjurnar af gjaldinu. Á þessu hefur verið misbrestur og gjaldið ekki skilað sér skv. markmiðum laganna.   Þannig námu tekjur af gjaldinu um 403 milljónum króna árið 2018 og án vafa talsvert hærri upphæð árin 2019 og 2020.  Á fjárlögum þessa árs er 375 milljónum króna varið til flutningsjöfnunar en tekjurnar af gjaldinu eru hins vegar vel yfir 400 milljónum króna. Telja má því víst að 30 – 50 milljónir renni þannig óskilgreint í ríkissjóð.

Gjörbreytt nálgun

Eftirleiðis mun Byggðastofnun alfarið sjá um þennan þátt og fer mjög vel á því að setja þessa fyrirgreiðslu í gegnsæjan og faglegan farveg.  Í reglugerð um styrki til jöfnunar á flutningskostnaði sem ráðherra setur er gert ráð fyrir að Byggðastofnun veiti styrki á grundvelli laganna til jöfnunar á flutningskostnaði olíuvara hjá söluaðilum sem veita þjónustu á svæðum sem búa við skerta samkeppnisstöðu vegna staðsetningar eða aðstöðumunar.

Fjórir skilgreindir byggðastuðlar verða nýttir í þessu sambandi. Sem dæmi,  þá er gert ráð fyrir því að ýmis svæði sem áður hafa fengið úthlutað fé til flutningsjöfnunar fái stuðulinn núll og þar með enga úthlutun. Þar er vísað til sölustaða sem eru innan við 3 km frá þjóðvegi 1 eða í þéttbýliskjarna með fleiri en 2000 íbúa.

Engin áhrif á ríkissjóð

Áhrif frumvarpsins á ríkissjóð eru þau að í stað sérstaka gjaldsins á olíuvörur kemur beint framlag úr ríkissjóði til svæðisbundinnar flutningsjöfnunar upp á 175 milljónir kr. sem fjármagnað verður með hækkun vörugjalda á olíuvörur. Sú fjárhæð verður nýtt til að jafna kostnað á dreifingu og sölu olíuvara á landsbyggðinni og lögin gera ráð fyrir að áhrif á ríkissjóð verði engin.

Álögum létt af olíufélögum

Enginn vafi er á að með þessari lagabreytingu er verið að létta álögum af olíufélögunum, – í boði ríkisstjórnarinnar.  Til þessa hafa þau verið að greiða, eða réttara sagt kaupendur eldsneytis, ríflega 400 milljónir með sérstöku flutningsjöfnunargjaldi en skv. nýjum lögum rennur mun lægri fjárhæð til flutningsjöfnunar eða 175 milljónir króna eins og staðan er um þessar mundir.

Þetta þýðir að í það minnsta 225 – 240 milljónir verða eftir hjá olíufélögunum.  Það verður fróðlegt að sjá hvort neytendur fá að njóta þessara hagstæðu breytinga í lægra verði á eldsneyti.  Ef hinn elskaði samkeppnismarkaður sem núverandi stjórnvöld hafa svo mikla trú á virkar, ætti það sannarlega að gerast.

Styrkari lagastoð

Með setningu laganna er verið að styrkja umgjörð varðandi flutningsjöfnuð en talsvert ósætti hefur verið hjá olíuinnflytjendum með það fyrirkomulag sem gilt hefur í ríflega aldarfjórðung.  Einhver þeirra standa nú í málaferlum vegna þess.

Í greinargerð með lagafrumvarpinu var fjallað nokkuð um skuldbindingar okkar vegna EES samningsins um ríkisstyrki.  Eldri lagaákvæðin voru komin svo til ára sinna að þau voru þegar við lýði við gildistöku EES samningsins.  Með lagabreytingunni er fyrst og fremst horft til þess að gera breytingar sem felast í einföldun á útreikningi styrkja, gera úthlutanir markvissari og gegnsærri samhliða því að draga enn betur fram byggðasjónarmið og ramma þau inn með skýrum hætti.  Í þessu efni er leitast við að jafna lífskjörin um landið þótt í litlu sé og alla slíka viðleitni styðja vitaskuld jafnaðarmenn.  Útfærsla laganna á grundvelli reglugerðar samgöngu- og sveitastjórnarráðherra ræður hins vegar miklu og alls óvíst hvernig framkvæmdin verður en lögin munu taka gildi 1. janúar 2021.

Guðjón Brjánsson, alþm.

DEILA