Trausti Friðbertsson fæddist á Suðureyri við Súgandafjörð 26. júlí 1917.
Trausti kvæntist 13. júní 1942 Ragnheiði Láru Sigurðardóttur, f. í Reykjavík 13. júlí 1921, dóttir hjónanna Lovísu Árnadóttur og Sigurðar E. Ingimundarsonar. Ragnheiður lést 29. desember 1984.
Trausti vann á uppvaxtarárum sínum þau störf er til féllu í þeirra tíma íslensku sjávarþorpi, bæði til sjós og lands. Hann lauk prófi frá Samvinnuskólanum árið 1940 og hóf fljótlega eftir það að starfa við verslun og annan rekstur sem varð síðan hans lífsstarf. Fyrstu búskaparár sín bjuggu þau Ragnheiður á Suðureyri en fluttu síðan til Ísafjarðar. Hann hóf störf við verslun J.S. Edwald og Shell-umboðið á Ísafirði árið 1945 og starfaði þar til ársins 1948 er hann var ráðinn kaupfélagsstjóri við Kaupfélag Önfirðinga á Flateyri.
Trausti var kaupfélagsstjóri á Flateyri í nær 28 ár eða þar til hann lét af störfum vorið 1976. Ásamt með starfi kaupfélagsstjóra gegndi Trausti starfi framkvæmdastjóra Hjallaness hf., sem var útgerðarfélag að stórum hluta í eigu Kaupfélags Önfirðinga, frá og með árinu 1960. Þá féll einnig undir hans stjórn rekstur fiskverkunar, sláturhúss o.fl. sem þá var á vegum Kaupfélags Önfirðinga.
Árið 1976 fluttust þau Ragnheiður búferlum til Reykjavíkur þar sem þau bjuggu á Kleppsvegi 16. Eftir flutninginn suður tók Trausti við starfi skrifstofustjóra hjá Gúmmívinnustofunni hf. þar sem hann starfaði allt til vorsins 1995 er hann lét af störfum tæplega 78 ára gamall.
Á Flateyri tók hann þátt í félagsmálum og sinnti nefndastörfum á vegum sveitarfélagsins. Hann sinnti einnig félagsstörfum innan Sambands ísl. samvinnufélaga og vann að ýmsu er laut að framförum og úrbótum innan samtaka fiskframleiðenda og útvegsmanna á Vestfjörðum.
Árið 1990 festi hann kaup á íbúð í nýbyggingu fyrir eldri borgara í Hraunbæ 103 þar sem hann bjó síðan. Trausti sat í stjórn húsfélagsins í Hraunbæ 103 og annaðist fjárreiður þess til hinsta dags.
Börn Trausta og Ragnheiðar:
1) drengur er fæddist andvana árið 1942;
2) Gylfi, f. 19. nóv. 1943,
3) Sunneva, f. 2. feb. 1947,
4) Ragnar Magnús, f. 25. des. 1948,
5) Friðbert, f. 4. okt. 1954.
Trausti Friðbertsson lést á Landspítalanum 3. apríl 2002.
Verslunarhús Kaupfélags Önfirðinga á Flateyri sem byggt var 1956.
Skráð af Menningar-Bakki.