Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur undirritað reglugerð um auknar aflaheimildir til strandveiða á þessu fiskveiðiári.
Með reglugerðinni er komið til móts við þá miklu fjölgun báta sem hafa stundað strandveiðar á þessu ári en ljóst er að með ráðstöfuninni er öllum aflaheimildum í 5,3% kerfinu svokallaða ráðstafað að fullu á þessu fiskveiðiári.
Hinn 19. júlí í fyrra ráðstafaði ráðherra rúmlega 31 þúsund tonnum til sérstakra aðgerða í fiskveiðistjórnunarkerfinu.
Um árlega úthlutun var að ræða sem byggir á lögum um stjórn fiskveiða en samkvæmt þeim er 5,3% af heildarafla í hverri fisktegund dregið af leyfilegum heildarafla til að mæta áföllum, til stuðnings byggðalögum, línuívilnunar, strandveiða, rækju- og skelbóta, frístundaveiðar og til annarra tímabundinna ráðstafana til að auka byggðafestu. Í ákvörðun ráðherra fólst að alls 11.100 tonnum var ráðstafað til strandveiða sem er sama aflamagn og á síðasta fiskveiðiári og hefur aldrei verið meira frá því strandveiðar hófust.
Við upphaf strandveiða á þessu fiskveiðiári í maí sl. lá fyrir að talsverð fjölgun yrði í fjölda báta sem myndu taka þátt í veiðunum. Af þessum sökum átti ráðuneytið frumkvæði að því að funda með hagsmunaaðilum í maí sl. og fóru alls þrír fundir fram. Í kjölfarið sendir ráðuneytið bréf á Landssamband smábátaeigenda hinn 26. maí sl. þar sem m.a. var vísað til þess að líkur væru á því að það aflamagn sem ráðstafað væri til strandveiða á þessu fiskveiðiári myndu ekki duga til að veiðarnar gætu staðið út ágúst líkt og heimilt er samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða. Þá gerði ráðherra jafnframt grein fyrir þróun strandveiða á fundi ríkisstjórnarinnar fyrr í þessum mánuði.
Samkvæmt samantekt atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins eru nú líkur til þess að það aflamagn sem ætlað er til strandveiða muni klárast um komandi mánaðarmót og þyrfti Fiskistofa í kjölfarið skv. 2. mgr. 6. gr. a. laga um stjórn fiskveiða að stöðva veiðarnar.
Vegna þessa hefur ráðherra tekið ákvörðun um að flytja allar óráðstafaðar aflaheimildir innan 5,3% kerfisins á þessu fiskveiðiári til að koma til móts við aukna ásókn í strandveiðar á þessu fiskveiðiári.
Alls er um að ræða 720 tonn og verður heildaraflamagn til strandveiða á þessu fiskveiðiári 11.820 tonn sem er það mesta frá því strandveiðar hófust.
Ráðherra hefur að lögum engar frekari heimildir til að auka við aflaheimildir til strandveiða á þessu fiskveiðiári.