Reykhólakirkja flutt á Rauðasand

Ljósmynd úr fórum Ara Ívarssonar frá Melanesi á Rauðasandi. Hún er tekin þegar gamla kirkjan á Reykhólum var tekin ofan árið 1975. Aftan á myndinni stendur: „Mynd af grind Reykhólakirkju, allir grindarviðir eru 6 tommu tré, og er ilmandi lykt úr þeim ef þeir eru særðir.“

Í janúar 1966 fauk Saurbæjarkirkja á Rauðasandi í ofsaveðri en hún hafði verið reist árið 1869.

Þá strax fóru eldri Rauðsendingar að athuga möguleika að reisa nýja kirkju í Saurbæ og eftir nokkurn tíma varð niðurstaðan sú að endurreisa gamla kirkju sem áður hafði staðið á Reykhólum.
Var hún vígð árið 1856 en forgöngu um smíðina hafði Brynjólfiur Benediktsen, kaupmaður í Flatey og eigandi Reykhóla.

Árið 1963 var ný kirkja vígð á Reykhólum en sú gamla stóð hins vegar í rúman áratug eftir það eða fram til 1975. Var hún þá tekin ofan og kunnáttusamlega rifin af Hannesi Stígssyni sem merkti vandlega hverja spýtu, bjálka og stoð til að auðvelda endurreisn síðar því að kirkjan þótti merkileg frá byggingarfræðilegu sjónarmiði.

Hún var flutt þannig í samanbundnum spýtnabútum suður á Bessastaði til varðveislu. Með sameiginlegu átaki heimamanna á Rauðasandi, Þjóðminjasafns Íslands og Húsfriðunarsjóðs fannst sú lausn að endurreisa kirkjuna í Saurbæ og fela Saurbæjarsöfnuði hana til varðveislu.

Þjóðminjasafnið og Húsafriðunarsjóður stóðu að endurbyggingu Reykhólakirkju á Rauðasandi og hafði Hörður Ágústsson umsjón með verkinu sem var að mestu leyti unnið af Gunnari Guðmundssyni, kirkjusmið á Skjaldvararfossi á Barðaströnd.

Var kirkjan vígð að nýju á þessum stað 5. september 1982.

Af vef Ljósmyndasafns Ísafjarðar.

DEILA